Aðdragandi jóla í Stykkishólmi

Aðdragandi jóla í Stykkishólmi

Á aðventunni hafa margar hefðir fest sig í sessi hér í Stykkishólmi eins og víðar. Ljóst er þó að jólin í ár verða að einhverju leyti frábrugðin því sem vant er sökum aðstæðna. Engu að síður eru fjölmargir möguleikar á því að gleðjast saman og njóta aðventu og jóla.

Friðarganga með breyttu sniði

Hefð hefur skapast í Hólminum fyrir friðargöngu á Þorláksmessu sem er fastur liður hjá mörgum í aðdraganda jólanna. Í stað hefðbundnar firðargöngu eru bæjarbúar nú hvattir til að fara í sína friðargöngu hver fyrir sig eða kveikja á kyndli fyrir utan heimili sitt kl. 18.00 á Þorláksmessu og fá sér heitt súkkulaði með rjóma.

Níundi bekkur grunnskólans verður með sölu á kyndlum ásamt fleiru í Norska húsinu föstudagskvöldið 18. desember kl.20.00-22.00. Þá eru bæjarbúar hvattir til að kíkja þar við og styrkja gott málefni.

Friðarganga eða samvera á Þorláksmessu er tilvalin stund til að eiga með jólakúlufjölskyldunni í jólaundirbúningnum. Tökum þátt og sýnum friðarvilja okkar í verki.

Minnt er á að huga að sóttvörnum.

Best skreytta húsið

Níundi bekkur mun sjá um valið á skemmtilegustu jólaskreytingunni utanhúss. Niðurstaðan verður gerði opinber á vefsíðu Stykkishólmsbæjar fyrir jólin og því um að gera að fylgjast með. Tilvalið er svo fyrir fjölskylduna að fá sér göngu yfir jólin og skoða skreytingarnar.

Áramóta- og þrettándabrenna

Í samráði við lögreglu hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa jóla- og áramótabrennum í ár í samræmi við sóttvarnareglur.