Engin ný smit og tilslakanir í sjónmáli

Engin ný smit og tilslakanir í sjónmáli

Engin ný smit greindust í Stykkishólmi síðasta sólarhringinn og aflétting allra varúðarráðstafana því fyrirhuguð á mánudaginn.

Greint var frá því í gær að ef fleiri smit greindust ekki utan sóttkvíar í Stykkishólmi væri gert ráð fyrir tilslökunum á áður auglýstum varúðarráðstöfunum á næstu dögum. Tvö sýni voru tekin í gær og reyndist hvorugt jákvætt. Engin sýni voru tekin í dag og því má gera ráð fyrir óbreyttu ástandi á morgun.

Ef fer sem horfir verður skólahald með hefðbundnum hætti frá og með mánudegi sem og starfsemi annarra stofnanna bæjarins, áfram verður þó lögð rík áhersla á sóttvarnir. Heimsóknir á dvalarheimili aldraðra verða þó með einhverjum takmörkunum en forstöðumaður kynnir þær fyrir íbúum og aðstandendum.

FÖRUM ÁFRAM VARLEGA

Íbúar þó áfram hvattir til að huga áfram vel að persónubundnum smitvörnum og fylgjast með þróun mála.

Þá eru þeir sem hafa einkenni COVID-19 hvattir til að hafa samband símleiðis við heilsugæslustöð sem metur þörf á sýnatöku.

Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á covid.is.