Hönnunarsamkeppni um gerð útsýnisstaðar í Súgandisey

Hönnunarsamkeppni um gerð útsýnisstaðar í Súgandisey

Hönnunarsamkeppni um gerð útsýnisstaðar í Súgandisey

Stykkishólmsbær hefur í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, auglýst eftir þátttakendum í forval vegna samkeppni um hönnun útsýnisstaðar á einni af náttúruperlum Breiðafjarðar, Súgandisey. Eyjan var upphaflega sjálfstæð rétt utan Stykkishólms, en var á síðustu öld tengd landi með uppfyllingu þegar ný hafnaraðstaða var útbúin fyrir Breiðarfjarðarferjuna. Markmið hönnunarsamkeppninnar er að auka útsýnis- og náttúruupplifun íbúa og gesta svæðisins, auka aðdráttarafl Stykkishólms sem eftirsóknarverðs ferðamannastaðar á Snæfellsnesi og ekki síst að tryggja betur öryggi þeirra er ganga á Súgandisey. Verkefnið hlaut í mars styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Verkefnið

Leitast verður við að afla hugmynda að hönnun og efnisnotkun útsýnissvæðisins sem gegna á því hlutverki að svala forvitni þeirra sem vilja skoða þverhnípt bjarg Súgandiseyjar sem ver innsiglingu bæjarins vel fyrir ágangi sjávar. Valin verða fjögur teymi til þátttöku og fær hvert greiddar 750 þúsund krónur fyrir tillögur sínar. Að auki verða 500 þúsund krónur greiddar fyrir verðlaunatillöguna og er stefnt að því að semja við verðlaunahöfunda um áframhaldandi hönnun útsýnisstaðarins. Gerð er krafa um að í hverju umsóknarteymi sé landslagsarkitekt, aðili á lista Mannvirkjastofnunar yfir löggilda hönnuði og að teymið innihaldi a.m.k. einn sem hlotið hafi viðurkenningu eða verðlaun í skipulags- eða hönnunarsamkeppnum. Valnefnd sem skipuð er fulltrúum frá sveitarfélaginu og FÍLA munu meta hvaða teymi uppfylla skilyrði til þátttöku.

Súgandisey

Stykkishólmur liggur nyrst á hinu fornfræga Þórsnesi í eins konar viki eða vík milli tveggja ásdraga sem ganga í sjó fram og nefnast höfðar í munni heimamanna. Skammt undan landi lokar svipsterk stuðlabergseyja útsýni til norðurs og myndar gott skjól, Súgandisey, en milli  hennar og víkurinnar  er klapparhólmi, Stykkið, sem staðurinn er viðkenndur. Við Súgandisey er ferjubryggja fyrir Breiðafjarðarferjuna Baldur, en höfnin er upphaf og líftaug þessa breiðfirska höfuðstaðar. Súgandisey er eftirsóknarverður staður fyrir heimamenn og gesti bæjarins til göngu- og náttúruupplifunar. Meðal annars er eyjan rík af fuglalífi og einstöku útsýni yfir Breiðafjörð og bæjarstæði Stykkishólmsbæjar. Auk þess fara vinsældir Súgandiseyjarvita sem myndefnis sívaxandi. Vitinn var reistur árið 1897 á Gróttu á Seltjarnarnesi og fluttur í Súgandisey árið 1948 og er  vitahúsið elsta vitamannvirki sem starfrækt er á Íslandi. Fjölmörg dæmi eru um brúðkaupsmyndartökur við vitann og víðs vegar í eynni auk þess sem brúðkaup hafa farið þar fram. Í Súgandisey eru göngustígar um eyna.

Ferðaþjónusta í Stykkishólmi

Ferðaþjónusta í Stykkishólmi á sér langa hefð þar sem ferjusiglingar um náttúruperlur Breiðafjarðar skipa stóran sess. Þá hefur fegurð bæjarins ásamt fjölbreyttu og töfrandi landslagi Snæfellsness verið mikið aðdráttarafl fyrir innlenda og erlenda gesti eins og meðal annars kemur fram í niðurstöðu skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála frá árinu 2018 þegar áætlað er að um 235 þúsund manns hafi heimsótt Stykkishólm. 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigurbjartur Loftsson verkefnisstjóri í síma 788 0077, netfang: baddi@w7.is. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í forvalinu eru beðnir að senda upplýsingar fyrir kl. 16 fimmtudaginn 11. júní til Ráðhúss Stykkishólmsbæjar við Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi. Senda má umsóknir með rafrænum hætti til verkefnisstjóra, Sigurbjarts Loftssonar. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið eru að finna á vef Félags íslenskra landslagsarkitekta, Fíla.is.

Sjá auglýsingu um forval með því að smella hér.