Spennandi verkefni í Grunnskólanum í Stykkishólmi

Spennandi verkefni í Grunnskólanum í Stykkishólmi

Grunnskólinn í Stykkishólmi sagði nú á dögunum frá Tæknistöðinni á facebooksíðu sinni sem vakti mikla athygli. Tæknistöðin er hópur í sköpun á miðstigi sem lauk vetrarstarfi sínu nú fyrir skemmstu. Sköpun er fag innan Gunnskólans sem leggur m.a. áherslu á list- og verkgreinakennslu með það að markmiði að þjálfa nemendur í skapandi vinnu.

Tæknistöðin er nýjung í skólastarfinu þar sem hugmyndin var að samþætta tölvuteikningu, þrívíddarprentun og forritun. Vegna COVID-19 varð skerðing varð á tímafjölda í vetur en stefnt er að því að halda áfram með verkefnið næsta haust.

Arna Sædal hefur yfirumsjón með verkefninu og fékk sér til liðs kerfisfræðinginn Óðinn Burkna og Sigurbjart Loftsson, eða Badda Lofts eins og hann er jafnan kallaður, sem koma inn í stundakennslu með sína sérfræðiþekkingu. Auk þess er verkefninu lagt lið með styrkjum frá Skipavík, Sæfelli, Þórishólma og W7.

Verkefnið
Í febrúar bauð skólinn upp á Tæknistöð innan sköpunar og samanstóð hópurinn af nemendum í 5. -7. bekk. Gamli miðbærinn í Stykkishólmi er viðfangsefni hópsins. Grunnurinn er A1 loftmynd af bænum í 1:200, þrívíddaprentuð hús í réttum hlutföllum og rafvæðing á svæðinu í formi ljósa og farartækja sem eru forrituð.

Niðurstaða fyrsta áfanga verkefnisins var að blanda saman tölvuteikningu með þrívíddarprentun og var Baddi Lofts fenginn til að leiðbeina bæði nemendum og kennara.


Hér má sjá afurð fyrsta áfanga verkefnisins.

Aðdragandi
Kirstbjörg Hermannsdóttir, verkefnastjóri sköpunar, stökk á tækifærið þegar Óðinn Burkni bauð fram aðstoð sína og þekkingu í þágu nemenda. Aðkoma Óðins að verkefninu er leiðsögn í forritun, bæði fyrir kennarann sem stýrir þessu verkefni og nemendur sem taka þátt í því. Auk þess er Óðinn skólanum innan handar í innkaupum á því sem þarf fyrir verkefni af þessari stærðargráðu. 
Kristbjörg telur mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að kynnast tækninýjungum. Að hennar sögn er þessu nálgun vænleg leið til árangurs, „kennarinn tileinkar sér nýja hæfni samhliða því að fást við lifandi verkefni og hafa stuðning fagaðila í gegnum allt ferlið. Ég trúi því að endurmenntun í þessu formi skili okkur kennara sem tekur við keflinu þegar samstarfi við stundakennara lýkur og verði leiðandi í kennslu á sviði tækni og nýjunga við skólann okkar.“