Smit í Stykkishólmi er ekki innanlandssmit

Smit í Stykkishólmi er ekki innanlandssmit

Tveir einstaklingar hafa nú greinst með COVID-19 veiruna á Vesturlandi og er annað tilfellið í Stykkishólmi.

Einstaklingurinn sem greindist hér í Stykkishólmi kom nýverið erlendis frá og fylgdi tilmælum yfirvalda um að fara beint í sóttkví við heimkomu, en hann greindist með veiruna á meðan á sóttkví stóð. Hann er nú í einangrun í samræmi við verklag þar að lútandi, en einangrun er fyrir þá sem eru með staðfest COVID-19 sýkingu en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda.

 

Þar sem viðkomandi fylgdi fyrirmælum sóttvarnarlæknis um að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu, án tillits til hvaðan hann kom, mun hann ekki hafa átt í samskiptum við aðra í návígi frá því sóttkví hófst, þ.m.t. hér í Stykkishólmi.

 

Umrætt tilvik er ágætt dæmi um að aðgerðir sóttvarnalæknis eru að skila árangri og er því áréttað mikilvægi þess að almenningur haldi áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnarlæknis.

 

Að lokum er rétt að minna íbúa á að fylgjast vel með fréttaflutningi og öðrum tilkynningum.

 

Á www.covid.is má svo finna upplýsingar um Covid-19 á Íslandi og allar nýjustu fréttir en að síðunni standa Landlæknisembættið og Almannavarnir.