Liston boðar sameiningu

Liston boðar sameiningu

Alþýðulistamaðurinn Liston kom færandi hendi í Ráðhúsið í Stykkishólmi nú í morgun. Hann færði Stykkishólmsbæ að gjöf verk sem er að hluta unnið úr grjóti sem hrundi úr Súgandisey fyrr í sumar.

Talsvert grjóthrun var úr Súgandisey fyrr í sumar og varð m.a. tjón á öryggisgirðingu fyrir neðan eyjunna. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvarinnar brugðust hratt við og hreinsuðu upp það grjót sem hafði hrunið. Jakob Björgvin, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, hafði samband við Liston og bauð honum að nýta grjótið til listverka. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvarinnar óku grjótinu til Grundarfjarðar á verkstæði Listons.

Sem þakklætisvott kom hann færandi hendi í morgun og færði Stykkishólmsbæ verkið sem sjá má á myndunum hér að neðan. „Þegar Hólmarar auglýstu þorrablót fyrir tveimur árum síðan photoshop-uðu þeir Kirkjufellið í Súgandisey þannig að mér fannst við hæfi að teikna það í grjótið“- segir Listion og hlær, en aftara grjótið í verkinu kemur úr Súgandisey og hefur nú verið mótað eftir Kirkjufellinu í Grundarfirði. Fremra grjótið kemur frá Grundarfirði og er mótað eftir Súgandisey, það ber mynd af sól, þar sem sólin kemur upp í austri og Stykkishólmur er austasti bærinn á Snæfellsnesi. Hver sólargeisli táknar einn bæjarkjarna á Snæfellsnesi, Stykkishólm, Grundarfjörð, Ólafsvík, Rif og Hellissand. Liston vonast til þess að Hólmarar, líkt og sólin, rísi upp í austri og leiði Snæfellsnes til sameiningar. „Það er heilmikil ádeila í þessu“ – segir listamaðurinn kátur.