Júlíana Jónsdóttir - sýning

Júlíana Jónsdóttir - sýning

Dagana 22. - 24 mars verður Júlíana - hátíð sögu og bóka haldin í sjöunda sinn í Stykkishólmi. Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla ætlar að taka þátt í hátíðinni og opna sýningu um Júlíönu Jónsdóttur sem hátíðin er kennd eftir.

Júlíana Jónsdóttir (27. mars 1838 – 12. júní 1917) var íslensk skáldkona, fædd á Búrfelli í Hálsasveit í Borgarfirði en fluttist til Kanada og dó þar. Hún gaf út ljóðabók fyrst íslenskra kvenna. Það var bókin Stúlka sem kom út árið 1876. Veturinn 1878-79 var leikrit hennar Víg Kjartans Ólafssonar sett upp í Stykkishólmi og er það fyrsta leikritið á Íslandi sem gert er eftir íslenskri fornsögu. Árið 1916 gaf hún svo út bókina Hagalagðar, sem kom út í Winnipeg og var fyrsta skáldverk eftir íslenska konu sem kemur út á bók vestanhafs.

Júlíana átti mikil tengsl við Norska húsið í Stykkishólmi, þar sem Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla er til húsa. Árni Thorlacius sem lét byggja húsið var henni velgjörðarmaður og aðstoðaði hana við að koma verkum sínum á framfæri og bjó hún í Norska húsinu um tíma.

Á sýningunni verður þessum tengslum gerð skil, sem og ævihlaupi Júlíönu, verkum hennar og tímanum er hún bjó í Stykkishólmi.