Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar 2019 – Greinargerð bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar 2019 – Greinargerð bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2019 var samþykkt samhljóða eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 13. desember 2018.  Samtímis var samþykkt lögbundin þriggja ára áætlun fyrir árin 2019-2021.

Við gerð fjárhagsáætlunar Stykkishólmsbæjar fyrir árin 2019 til 2022 átti sér stað gott samstarf meðal bæjarfulltrúa og um hana myndaðist þverpólitísk samstaða. Með fjárhagsáætlun er í raun verið að skipuleggja framtíðina þar sem tekjur, útgjöld og aðrir þættir eru reiknaðir eins nákvæmlega út og mögulegt er út frá fyrirliggjandi forsendum og lagður grunnur að hinni pólítísku stefnumótun hvers tíma.

Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri bæjarins, á sama tíma og leitast er við að þjónusta við bæjarbúa sé eins og best verður á kosið. Helstu breytingar á álagningu íbúa eru þær að álagningarstuðull fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkar hjá Stykkishólmsbæ á árinu 2019 úr 0,48% í 0,39% og að álagningarhlutfall úrsvars hækkar úr 14,37% í 14,52%. Þá gerir fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 57 milljónir króna á árinu 2019 og að áætlað veltufé frá rekstri aukist um 50 milljónir króna frá áætlun 2018 og um 140 milljónir króna frá árinu 2017.


MARKMIÐ FJÁRHAGSÁÆTLUNAR 2019-2022

Fjárhagsáætlun áranna 2019-2022 er unnin út frá forsendum og markmiðum sem bæjarstjórn setti sér í september sl. og hefur þeim verið fylgt við vinnu við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Í þeim forsendum er gert ráð fyrir 3,6% verðbólgu yfir árið 2019 og 3% árin 2020-2022 og að meðalvextir lána verði um 3,8% raunvextir á árunum 2019-2022. Gerðu forsendur ráð fyrir því að gjaldskrá Stykkishólmsbæjar myndi almennt hækka um 3% á hverju ári.

 
 
 
 
 
 
 
 

Helstu markmið fjárhagsáætlunar 2019-2022 eru að rekstur A-hluta sveitarfélagsins verði í jafnvægi, þ.e. að skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta, og jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu, þ.e. A- og B-hluta. Jafnframt er stefnt að því að framlegðarhlutfall verði a.m.k. 15% í árslok 2019, að veltufjárhlutfall nálgist 1,0 sem fyrst, handbært fé verði á bilinu 105-110 millj. í árslok 2019 og að skuldaviðmið samkvæmt sveitastjórnarlögum verði í kringum 121-123% strax í lok árs 2019 og að skuldaviðmið haldi áfram að lækka út kjörtímabilið.

 

 

REKSTUR OG FRAMLEGÐ A OG B HLUTI

Gert er ráð fyrir 7,9% tekjuvexti á árinu 2018, 8,1% á árinu 2019 en á árunum 2020-2022 er gert ráð fyrir 3,0% tekjuvexti. Vöxtur rekstrargjalda er lægri en sem nemur vexti tekna. Áætlun gerir því ráð fyrir aukinni framlegð á tímabili fjárhagsáætlunar. Gert er ráð fyrir þó nokkrum rekstrarbata á tímabilinu sem skilar sér í bættri framlegð, bættri rekstrarniðurstöðu og lægra skuldaviðmiði.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 eru heildartekjur A- og B-hluta áætlaðar 1.727 m.kr. Þar af eru skatttekjur 847 m.kr. og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 276,6 m.kr. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 189,3 m.kr. og er rekstrarniðurstaða eftir afskriftir og fjármagnsliði A- og B-hluta áætluð 57 m.kr. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta bæjarsjóðs er áætluð 57 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 230,2 m.kr. og handbært fé frá rekstri 90 m.kr. 

Framlegð var um 111 m.kr. á árinu 2017, gert er ráð fyrir hækkun í 181 m.kr. á árinu 2018 og aukinni framlegð á árunum 2019-2022, áætlanir gera ráð fyrir að framlegð verði 298 m.kr. í árslok 2022. Þá fer framlegðarhlutfall úr 7,6% árið 2017 í 15,8% á árinu 2022, gangi áætlanir eftir.

 
 
 
 
 
 
 
 

 

 
 
 
 
 
 
 

FJÁRFESTINGAR A OG B HLUTI

Fjárfestingar áranna 2010-2014 í Stykkishólmsbæ eru undir landsmeðaltali á íbúa. Árin 2015-2017 voru þær hins vegar yfir landsmeðaltali pr. íbúa. Byggt á meðaltali fjárfestinga frá árinu 2006-2017 námu þær um 82 þús. kr. á hvern íbúa (í árslok 2017 var íbúafjöldi sveitarfélagins 1.177). Fjárfesting á ári nemur um 96 m.kr., byggt á þeim íbúafjölda. Ef stuðst er við meðalfjárfestingu á öllu landinu nemur árleg fjárfesting um 82 m.kr. miðað við íbúafjölda Stykkishólms í árslok 2017.

 

ÁÆTLAÐAR FJÁRFESTINGAR – SKIPT NIÐUR Á VERKEFNI

Samkvæmt áætlun um framkvæmdir og fjárfestingar á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir að rúmlega 500 m.kr. verði varið til framkvæmda og fjárfestinga. Í fyrirliggjandi áætlun um fjárfestingarliði vegna ársins 2019 er lögð áhersla á fjárfestingu í innviðum og bætta þjónustu við íbúa og ber hæst að fyrsti áfangi framkvæmda við skólalóðina við Borgarbraut mun hefjast á næsta ári.

Nýjum langtímalánum verður haldið í lágmarki á næstu fjórum árum og einungis er gert ráð fyrir 55 m.kr. í lántökur á árinu 2019 og 2020 og engum nýjum lángtímalánum á árunum 2021 og 2022. Þetta þýðir að aðeins um 10% framkvæmdakostnaðar er fjármagnaður með lántöku sem nema alls 55 m.kr. Umræddar fjárfestingar á næstu árum verða því nær alfarið fjármagnaðar með handbæru fé frá rekstri.

Eftirfarandi tölur fyrir 2019-2022 (í m.kr.) byggja á fjárhagsáætlun bæjarstjórnar og er fjárfestingum skipt niður á verkefni. Fjárfestingar á þessum árum nema um 110-150 m.kr. á ári að teknu tilliti til tekna vegna gatnagerðargjalda.

 

 

EFNAHAGUR A OG B HLUTI

Heildareignir A- og B-hluta eru áætlaðar 3.172 m.kr. í árslok 2019.  Heildarskuldir og skuldbindingar 2.345 m.kr., þar af eru lífeyrisskuldbindingar 284 m.kr. og aðrar skuldbindingar 65 m.kr.

Langtímaskuldir við lánastofnanir í B-hluta eru 378 m.kr., en langtímaskuldir við lánastofnanir í A-hluta 1.240 m.kr.

Afborganir langtímalána eru 148,5 m.kr. og eru fjárfestingar ársins 2019 áætlaðar 110 m.kr. eins og áður hefur komið fram og þá er í lok árs 2019 áætlað að handbært fé verði 90 m.kr. og engar lántökur áætlaðar á síðari hluta kjörtímabils. Á árinu 2019 er áætluð lántaka 45 m.kr. og 10 m.kr. á árinu 2020.

 

AFBORGUNARFERILL LANGTÍMALÁNA

Á kjörtímabilinu er gert ráð fyrir talsverðum breytingum á efnahagsreikningi sem leiðir til lækkunar á skuldum Stykkishólmbæjar en afborganir haldast nær óbreyttar milli 2019-2020 en taka síðan að lækka frá þeim tíma.

Hér að neðan má sjá afborgunarferil lána Stykkishólms m.v. lok október 2018 (dökkbláa súlan). Til viðbótar er búið að bæta við afborgunum vegna áætlaðrar viðbótarlántöku skv. fjárhagsáætlun 2019-2022. Eins og sést lækka afborganir nokkuð hratt á tímabilinu (ljósblár hluti súlu). Ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum frá og með árinu 2021.

 

B HLUTA STOFNANIR

Fjárhagsleg samantekt B-hluta stofnana:


 

TRAUSTUR GRUNNUR TIL FRAMTÍÐAR

Bæjarstjórn hefur undanfarin ár haft það að meginmarkmiði að rekstur sveitarfélagsins skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Þessi markmið hafa náðst, ef frá er skilið árið 2017 sem kom til vegna greiðslu skuldbindingar Brúar sem lá ekki fyrir fyrr en á árinu 2018, og við lok þessa kjörtímabils mun núverandi bæjarstjórn skila af sér sveitarfélagi með stöðugan rekstur og fjárhagslegan styrk til að standa undir fjárfestingum næstu ára.

Til nánari upplýsinga er bent á samþykkta gjaldskrá Stykkishólmsbæjar og fjárhagsáætlun Stykkishólmbæjar 2019-2022.