Pistill bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar við upphaf ársins 2018

Pistill bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar við upphaf ársins 2018

Árið 2017 var ár verulegra framkvæmda á vegum Stykkishólmsbæjar. Þegar litið er yfir verkefni síðasta árs og stöðuna sem er framundan hjá Stykkishólmsbæ er af ýmsu að taka hvað varðar uppbyggingu og bætt búsetuskilyrði í bænum. Það má halda því fram að besti mælikvarðinn um framvindu og árangur á kjörtímabilinu 2014 til 2018 sé sú ánægjulega staðreynd að tekjur bæjarins hafa aukist, fjárhagsstaðan er góð og íbúum hefur fjölgað nokkuð umfram landmeðaltal og hlutfallslega meira en er víðast á landsbyggðinni. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands áttu 1177 íbúar lögheimili í Stykkishólmi 1. desember 2017 og er það 7.5% fjölgun frá því sem var í desember 2014. Til þess að tryggja áframhaldandi fjölgun þarf að tryggja ný atvinnutækifæri og auka framboð af íbúðarhúsnæði. Að því þarf að vinna fullum fetum með auknu framboði byggingalóða.

Góður rekstur og bættur efnahagur bæjarins .

Fyrri hluti yfirstandandi kjörtímabils fór í það verkefni að endurstilla rekstur bæjarins, gera skipulagsbreytingar og móta þau verkefni sem bæjarstjórn hefur tekið ákvörðun um að verði forgangsverkefni. Vegna kjarasamninga varð aukning á útgjöldum umfram áætlun sem hefur tekist að mæta með skipulagsbreytingum, sparnaði og auknum tekjum auk þess sem eignasala kom að nokkru til móts við fjárfestingar. Skuldaviðmið hefur lækkað. Það hafði verið mjög hátt í upphafi síðasta kjörtímabils og var um tíma yfir og við 150% mörkin sem sveitarstjórnarlög setja sem leyfilegt hámark. Skuldaviðmið sem er skilgreint í sveitarstjórnarlögum er áætlað um 123% og skuldahlutfallið tæp 130% árið 2018 þrátt fyrir lántökur á síðasta ári og áform um nokkra fjárfestingu. Rekstur A og B hluta bæjarsjóðs hefur verið jákvæður og því innan marka svonefndrar jafnvægisreglu sem krafist er í sveitarstjórnarlögum. Þannig má segja að rekstur og efnahagur bæjarsjóðs sé traustur en því miður hafa daggjöld ekki staðið undir rekstri Dvalarheimilis aldraðra. Gert er ráð fyrir því að á því verði veruleg bragarbót með því að sérstök fjárveiting fékkst til hækkunar daggjöldum auk þess sem ríkissjóður tók yfir lífeyrisskuldbindingar hluta  starfsmanna dvalar og hjúkrunarheimila. Unnið er að uppgjöri þeirra aðgerða.

 

Hófleg skattlagning.

Í fjárhagsáætlun vegna ársins 2018 er gert ráð fyrir því að útsvarsálagning verði ekki full nýtt og verði áfram 14.37% en heimildin er 14.52%.  Álagningarhlutfall fasteignaskatts er einnig   lækkað.

Fasteignamatið í Stykkishólmi  hefur hækkað verulega sem er afleiðing þess að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur aukist og verðið hækkað. Fasteignaskattshlutfall íbúðarhúsnæðis lækkar úr 0.50% af matinu í það að verða 0.48%. Fasteignaskattshlutfall atvinnuhúsnæðis lækkar frá því að ver 1.65% í 1.57%. Lóðarleiga íbúðarhúsnæðis lækkar einnig frá 1.18% í 1.10% af lóðarmati.

 

Þá var samþykkt að auka afslátt af fasteignagjöldum elli-og örorkulífeyrisþega. Sá afsláttur er tekjutengdur og verður hámark afsláttar kr.90.800 sem er 25% hækkun frá fyrra ári ári. Er þannig komið til móts við þá eigendur fasteigna sem eru lífeyrisþegar.

 

 

Samningar um lífeyrisréttindi.

Þann 19. september 2016 gerðu Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar, með sér samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Markmið samkomulagsins var að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Á fyrstu dögum þessa árs var kynnt  hvaða fjárhagslegar kvaðir leggjast á bæinn vegna þessa og mun það verða tekið inn við gerð ársreiknings og endurskoðun fjárhagsáætlunar þessa árs. Þær auknu fjárhagslegu kvaðir sem leggjast á bæinn vegna þessa verður að líta á í því ljósi að breytt lífeyrisréttindi eru væntanlega til hagsbóta fyrir launþega.

 

Breytingar hjá sjúkrahúsinu

Jósep H. Blöndal sjúkrahúslæknir lét af störfum árið 2017 eftir farsælan feril við St. Fransickusspítalan. Jósep byggði upp með St.Fransickussystrunum og starfsfólki spítalans þá einstöku starfsemi sem er hjá háls- og bakdeild sjúkrahússins. Það var af miklum metnaði sem háls- og bakdeildin var sett af stað á vegum sjúkrahúss St. Franssyskussystra á sínum tíma. Frá upphafi naut Jósep mikils trausts af hálfu systranna og þær völdu þar rétt svo sem sjá má á þeim einstaka árangri sem náðst hefur á deildinni. Íbúar í Stykkishólmi og þeir fjölmörgu sjúklingar sem notið hafa þjónustu bakdeildar eru vissulega þakklátir fyrir starf þessa merka læknis. Það er fagnaðarefni að stjórnvöld og stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hafa tryggt áframhaldandi starfsemi bakdeildarinnar með því að ráða lækna til starfa til að taka við af Jósep og halda merki hans áfram á lofti með þeim frábæru sjúkraþjálfurum og öðru starfsfólki sem við deildina starfa. Þar hefur skipt miklu máli að þeim Hafdísi Bjarnadóttur lífeindafræðingi og Hrefnu Frímannsdóttur sjúkraþjálfara var falið að stjórna skipulagsbreytingum í kjölfar þess að Jósep lét af störfum. Gera verður ráð fyrir því að stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands leggi áherslu á að læknarnir sem hér starfa setjist hér að en verði ekki verktakar. Þá er vert að geta þess að nú hyllir undir að framkvæmdir hefjist við að byggja upp hjúkrunardeildina á sjúkrahúsinu sem mun styrkja starfsemina í heild sinni. Það eiga því að geta blasað við góðir tímar við okkur sem leggjum áherslu á að St. Fransickusspitalinn sem hluti HVE haldi reisn sinni.

 

Styrkir til félagsstarfs.

Það sem af er þessu kjörtímabili hefur bæjarstjórn lagt áherslu á að koma til móts við félagasamtök í bænum. Þar ber að nefna að að samið var við sóknarnefnd Stykkishólmskirkju um sérstakar greiðslur til Stykkishólmssafnaðar vegna afnota stofnana bæjarins af sal kirkjunnar, en skólarnir hafa góða aðstöðu í kirkjunni fyrir samkomur og tónleikahald. Gera þarf ráð fyrir því að á því verði framhald. Með framlagi til kirkjunnar var unnt að kosta bráðnauðsynlegar viðgerðir á þaki kirkjunnar. Þá var veittur sérstakur styrkur til Körfuknattleiksdeildar Snæfells umfram hinn almenna styrk sem var jafnframt hækkaður. Styrkurinn gaf félaginu færi á að endurskipuleggja starfsemina. Golfklúbburinn Mostri sér um rekstur tjaldstæðisins og aflar þannig klúbbnum tekna um leið og veitt er þjónusta við ferðamenn sem færir einnig tekjur til bæjarins. Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir því að vinna að endurskipulagningu þjónustunnar á tjaldsvæðinu en stóraukin umferð ferðamanna kallar á bætta aðstöðu. Síðast en ekki síst var veittur umtalsverður styrkur til hestaeigendafélagsins til byggingar reiðskemmu sem hafði verið lengi á döfinni. Styrkurinn til Hesteigendafélags Stykkishólms nemur nærri 18 milljónum króna þegar talin eru með lögboðin byggingarleyfisgjöld en þeim var bætt við styrkinn.

 

Leikskólinn stækkaður og leikvellir endurbættir.

Barnafjölskyldur í Stykkishólmi og þar með samfélagið í heild sinni nýtur þess að börn eru tekin inn í leikskólann 12 mánaða gömul. Það er meiri þjónusta en veitt er á höfuðborgarsvæðinu svo merkilegt sem það er. Fjölgun barna á leikskólaaldri fylgir íbúafjölguninni og kallaði á stækkun leikskólans. Því verkefni er lokið og rekstur hafinn í nýrri deild sem hefur fengið nafnið Bakki þar sem er deild yngstu barnanna. Þetta verkefni var á dagskrá 2018 en var flýtt vegna fjölgunar barna á leikskólaaldri. Viðhaldi opinna leikvalla í bænum hafði ekki verið nægjanlega sinnt mörg undanfarin ár. Í samstarfi við Rólóvinafélagið hefur verið hafist handa við viðhald og endurnýjun leiktækja og lagfæring á völlunum. Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun þessa árs að gera nokkra bragarbóta á þeim leikvöllum sem eru til staðar í misgóðu ástandi. Þá er vert að geta þess að settur var upp svonefndur Ærslabelgur við lóð skólans og nýtur hann mikilla vinsælda hjá börnum bæjarins sem í gleði hoppa þar og skoppa. Með stækkun leikskóla og endurbætur leikvalla er komið til mótsvið þá þörf sem blasir við í stækkandi bæjarfélagi.

 

 

Breytingar við rekstur Dvalarheimilis aldraðra og samstarf við Sjúkrahús HVE.

Eins og þekkt er og margrætt er stefnt að sameiningu Dvalarheimilis Stykkishólmsbæjar og Fransickussjúkrahús HVE með því að færa hjúkrunardeild dvalarheimilis á nýja endurbyggða hjúkrunardeild í sjúkrahúsinu. Með þeirri aðgerð er stefnt að því að bæta mjög alla aðstöðu fyrir þá sem þurfa að njóta þjónustu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Fyrsti áfangi þessara breytinga hófst haustið 2016 þegar eldhúsin voru sameinuð og nú hefur öll matreiðsla fyrir dvalarheimilið og grunnskólann verið færð í eldhús sjúkrahússins. Bærinn annast rekstur eldhússins í umboði HVE.  Með samstarfi Stykkishólmsbæjar, Heilbrigðisráðuneytis, Sjúkrahúss HVE og Framkvæmdasýslu ríkisins hefur verið unnið að endurskipulagningu og hönnun breytinga á hjúkrunardeildum sjúkrahússins sem og öðrum endurbótum á sjúkrahúsinu sem m.a. tengjast háls- og bakdeildinni. Í fjárlögum ársins 2017 var samþykkt fjárveiting til endurbóta á hjúkrunardeild HVE í Stykkishólmi. Samkvæmt áætlun munu breytingar á sjúkrahúsinu kosta um kr. 650.000.000,- sem er umtalsvert lægri upphæð en áætlun frá 2011 gerði ráð fyrir. Sú áætlun náði ekki fram að ganga. Samkvæmt fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar er gert ráð fyrir því að þegar hjúkrunardeildin hefur verið færð í sjúkrahúsið verði gömlu heimavistinni sem þjónar í dag sem Dvalarheimili aldraðra breytt í íbúðir. Þær íbúðir verði leigðar út með svipuðum hætti og þjónustuíbúðirnar sem eru fyrir. Matsalurinn verði þá nýttur fyrir félagsstarf aldraðra og einnig til þess að þjóna sem matsalur fyrir þá sem búa í þjónustuíbúðunum og vilja kaupa mat frá eldhúsi sjúkrahússins. Vonandi ganga þessi áform eftir en öllum má ljóst vera að það þolir ekki lengri bið að gera úrbætur á húsnæði hjúkrunarheimilisins fyrir aldraða þrátt fyrir heimilislegar aðstæður og einstaklega hæft fólk sem sinnir öldruðu heimilisfólki við erfiðar aðstæður. Þá er vert að geta þess að á síðasta ári hefur verið unnið að því að breyta herbergjum dvalarheimilisins, stækka og bæta þar aðstöðuna. Í áætlun þessa árs er gert ráð fyrir því að halda þeim endurbótum áfram.

 

Vinna við fjölmörg skipulagsverkefni

Á síðasta ári var lokið við vinnu við deiliskipulag íbúðabyggðar á Vatnsási vestan tjaldsvæðis og upp með þjóðveginum, en það svæði gæti komið til úthlutunar innan tíðar. Það skipulag var unnið vegna úthlutunar lóða fyrir smáhýsi nærri tjaldstæðinu. Deiliskipulagi blandaðrar byggðar við Reitaveg er lokið og því hægt að úthluta lóðum fyrir atvinnuhúsnæði. Unnið hefur verið að deiliskipulagi miðbæjar og hafnarsvæða sem og athafnasvæðis þar sem hótel á að rísa við Móvík innan við Víkursvæðið. Þá er gert ráð fyrir því að vinna að ýmsum skipulagsbreytingum vegna breyttrar nýtingar íbúðarhúsa í þágu ferðaþjónustu, svo sem gamla sýslumannsbústaðnum við Aðalgötu. Það er vissulega mikil gróska í bænum og því mikilvægt að sinna vel skipulagi þeirra bæjarhluta sem hafa verið valdir sem uppbyggingarsvæði. Á síðasta ári var úthlutað byggingarlóðum í Víkurhverfi og í tengslum við það unnar nokkrar breytingar á skipulagi svæðisins til þess að fjölga raðhúsa og parhúsalóðum sem eftirspurn er eftir. Er þess að vænta að það svæði verði gert byggingarhæft svo fljótt sem kostur er til þess að þar geti hafist íbúðarhúsabyggingar.

 

Atvinnumál

Bæjarstjórn hefur efnt til íbúafundar um atvinnu- og skipulagsmál sem vissulega eru nátengd. Þar töluðu sérfræðingar HAFRÓ um rannsóknir á hörpudiski og þörungum. Fulltrúi sjávarútvegsráðuneytis kynnti nýja löggjöf um öflum sjávargróðurs í atvinnuskyni og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands fjallaði um auðlindanýtingu í Breiðafirði. Arkitektar stofunnar GlámaKím kynntu skipulagstillögur af miðbæjarsvæði og hafnarsvæði Skipavíkurhafnar sem og Stykkishafnarsvæðinu. Einnig kynntu arkitektarnir þörfina fyrir endurskoðun aðalskipulags. Sá fundur heppnaðist vel og er stefnt að því að efna til annars fundar fljótlega á þessu ári. Þar verði einnig fjallað um atvinnumál og uppbyggingu í tengslum við ný atvinnutækifæri sem stefnt er að með enn frekari nýtingu náttúruauðlinda sem má nýta í Breiðafirði sem og uppbyggingu í sjávarútvegi sem gæti orðið veruleg þegar skelveiðar hefjast að nýju í meira mæli en sem nemur tilraunaveiðunum sem hafa verið stundaðar og lofa góðu. Síðast en ekki síst er þörf fyrir að fjalla um mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu sem er fyrirhuguð  og þá þróun að veita heimild til rekstrarleyfa vegna gistiaðstöðu í íbúðarhúsahverfum. Þá er gert ráð fyrir því að fjalla um nauðsyn nýsköpunar í samstarfi við atvinnulífið. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir fjárframlagi til stuðnings við nýsköpunarverkefni sem unnin verði í samstarfi við atvinnulífið í bænum. Það gæti verið nefnt „Startup Stykkishólmur“ til samræmis við önnur svipuð verkefni sem hafa verð sett af stað í öðrum sveitarfélögum. Íbúafundurinn verður kynntur fljótlega.

 

Samstarf á vettvangi Sjávarorku ehf.

Stykkishólmsbær er hluthafi í félaginu Sjávarorku ehf. sem hefur stundað rannsóknir á sjávarföllum og aðstæðum í Breiðafirði með það að markmiði að kanna hvort sjávarföllin geti verið virkjanleg. Leiðandi í þessu starfi eru Rarik og Landsvirkjun.

Fyrir skömmu birtist grein um virkjun sjávarfalla í Morgunblaðinu. Þar er vakin athygli á því að tækni hefur fleygt fram við sjávarfallavirkjanir. Bæjaryfirvöld hafa hvatt til þess að áfram verði unnið að rannsóknum á virkjun sjávarfalla í Breiðafirði á vegum Sjávarorku og allra leiða leitað til þess að koma upp RANNSÓKNARSETRI Á SVIÐI SJÁVARORKU hér í Stykkishólmi og herða róðurinn að því marki að virkja sjávarföllin í Breiðafirði. Um er að ræða stórt verkefni sem gæti skapað mikla möguleika við raforkuframleiðslu og um leið atvinnuuppbyggingu í bænum sem tengist orkunýtingu.

 

 

Úthlutun lóða.

Auglýstar hafa verið lóðir fyrir íbúðarhús á Víkursvæði austan við golfvöllinn. Á heimasíðu bæjarins er einnig vakin athygli á lausum lóðum hér og þar í bænum bæði fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði. Er ástæða til þess að vekja athygli á því að á þessum svæðum eru mjög álitlegar byggingarlóðir og því má ætla að framkvæmdir við húsbyggingar muni aukast enda þörf fyrir fjölgun íbúðarhúsa..

 

Framkvæmdir  við gatnagerð og endurbygging gangstíga.

Viðhald og endurnýjun gatna og gangstétta er viðvarandi verkefni sem mikilvægt er að sinna vel svo ásýnd bæjarins skaðist ekki vegna slitinna og holóttra akbrauta og sundursprunginna gangstétta sem var áberandi. Á síðustu þremur árum náðist nokkur áfangi í þessu viðhaldi sem var vel metið af bæjarbúum miðað við þau viðbrögð sem urðu þegar framkvæmdum lauk við breytingar á Víkurgötu og endurbætur á Aðalgötu við gatnamót Borgarbrautar. Þá var lokið við malbikun á Hamraenda, Silfurgötu, Reitavegi, Hafnargötu, plani við Hafnarhúsið og Áhaldshús, Smiðjustíg og klæðningu gatnanna Hjallatanga, Ásklif, Ásbrú, Lágholt, Skúlagötu, Austurgötu og hluta Borgarbrautar. Þá hefur verið unnið við endurgerð gangstétta víða í bænum. Hluti þess að byggja upp gatnakerfið eru nýbygging gatna sem þarf að undirbúa og er hluti af þeim framkvæmdum sem er gert ráð fyrir að hefja vegna nýrra gatna í Víkurhverfi og tengibraut inn að hótellóðinni sem var búið að úthluta í Skothúsmýri milli Móvíkur og Sundvíkur.

 

 

Rekstur og eignarhald lagnakerfis.

Á sínum tíma var talið hagkvæmt fyrir bæinn  að selja Orkuveitu Reykjavíkur bæði hitaveitu og vatnsveitu. Ekki er að efa að það var rétt ákvörðun og hagfelld  fyrir íbúa bæjarins. Gjaldskrá hitaveitu er hagstæð en verðlagning á kalda vatninu hefur verið hærri en góðu hófi gegnir. Eftir árangursríkar viðræður og samskipti við stjórnendur Veitna ehf. sem er dótturfyrirtæki OR var verðið á kalda vatninu lækkað um 8.8% frá 1.1.2017. Eftir ákvörðun bæjarstjórnar hafa verið í gangi viðræður um þann möguleika að Veitur ohf. taki við rekstri fráveitunnar. Það blasir við að ekki er hagkvæmt að tveir aðilar sinni rekstri og uppbyggingu lagnakerfanna í götunum til viðbótar við þá sem sjá um raflagnir, ljósleiðara og koparlagnir . Þess er vænst að samningar takist við Veitur ohf . um að fyrirtækið taki yfir og kaupi allt holræsakerfið og skapi þannig enn aukna hagkvæmni við rekstur veitukerfanna í bænum. Það ætti að geta verið öllum til hagsbóta, bæði Veitum ohf. og bæjarbúum. Inní þær viðræður mun þurf að taka afstöðu til þess að umfangsmiklar framkvæmdir standa fyrir dyrum við að sameina útrásir fráveitunnar og endurbyggja hluta veitukerfisins svo ákvæði reglugerðar um fráveitur verði uppfyllt. Þar er um mjög umfangsmikið verkefni að ræða miðað við þá áætlun sem verkfræðistofan Verkís hefur unnið fyrir bæinn og kallar á miklar framkvæmdir og rekstur dælustöðva og endurnýjun útrásanna fram í strauma Breiðafjarðar.

 

Viðhald húseigna

Fasteignir í eigu bæjarins þarfnast stöðugs viðhalds. Nokkur stór verkefni bíða og hafa beðið lengi svo sem viðgerðir Eldfjallasafnsins sem er mjög aðkallandi. Þá er komið að viðgerðum og viðhaldi útisundlaugar í íþróttamiðstöðinni. Í fjárhagsáætlun 2018 eru settir nokkrir fjármunir til viðhaldsverkefna og verður að gera ráð fyrir enn frekari fjárútlátum næstu árin. Í íþróttamiðstöðinni var unnið af kappi við viðhald og endurbætur lagna og húsnæðis og er gert ráð fyrir því að halda þeirri vinnu áfram í ár. Unnið var að því að bæta aðgengi fatlaðra að byggingum bæjarins svo sem íþróttamiðstöð, grunnskóla og dvalarheimilis. Það má enn gera betur og er verið að setja upp áætlun um þær framkvæmdir sem tryggja fötluðu fólki greiðan aðgang að stofnunum bæjarins svo sem með lyftu í skólanum.

 

Nýr samningur við Íslenska Gámafélagið

Vönduð og umfangsmikil flokkun sorps í Stykkishólmi hefur vakið athygli víða og í raun aðdáun þeirra sem leggja áherslu á umhverfismál í víðasta skilningi þess málaflokks. Frumkvöðlar þess verkefnis eiga heiður skilið fyrir framsýni og framkvæmd alla. Árið 2016  var gerður nýr samningur við Íslenska Gámafélagið  sem sér um sorphirðu í bænum. Sá  samningur felur í sér nokkra lækkun á einingaverðum og því sparnað gagnvart bænum, sem veitir ekki af því kostnaður er allnokkur miðað við það, sem gerist hjá þeim sveitarfélögum sem leggja minni áherslu á flokkun , moltugerð og vandaða urðun. Jafnframt var samið um að Íslenska Gámafélagið reisi flokkunarskemmu á athafnasvæði sorphirðunnar við Snoppu sem fyrirtækið byggir og rekur. Það verkefni er komið af stað er þess að vænta að skemman verði tekin í notkun snemma á þessu ár. Það er því að vænta enn vandaðri vinnu við flokkun og meðferð sorpsins sem fellur til og koma fyrir í samræmi við vandaðar verklagsreglur.

 

Stykkishólmshöfn.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2018 og 2019 eru áætlaðar nokkrar framkvæmdir í höfninni. Þar er um að ræða dýpkun, gerð göngubrúar að ferjulæginu með fram smábátabryggjunum í austurhöfninni, koma upp búnaði vegna gjaldskyldra bílastæða svo það helsta sé nefnt. Í gildandi Samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að dýpka Stykkishöfnina við steinbryggjuna og allt innra hafnarsvæðið. Ekki liggur enn fyrir hvort fjárveiting fæst til verksins en í fjárhagsáætlun 2018 er þetta verkefni fjármagnað að þeim hluta sem tilheyrir hafnarsjóði. Þá er gert ráð fyrir fjárframlagi til framkvæmda við Skipavíkurhöfn vegna áforma um stækkun hafnarsvæðis fyrir enn frekari iðnaðarstarfsemi í Skipavík. Er þar um að ræða áform Skipavíkur um aukna starfsemi og ekki síst áform Deltagen Iceland í samstarfi við Matís um nýtingu þangs og þörunga úr Breiðafirði til framleiðslu verðmætra efna sem eru unnin úr þörungum. Verði það verkefni sett af stað þarf að huga að enn stærri framkvæmd við hafnargerð og verður þá að stokka framkvæmdaáform upp og leita eftir fjárveitingu til þess verks í samræmi við áætlun sem vinna þarf í samstarfi við framkvæmdaaðila. Miklu skiptir varðandi framkvæmdaáform að höfnin er nú rekin með hagnaði. Verði af því að þangið verði nýtt til vinnslu munu tekjur hafnarinnar aukast í samræmi við löndun þangs og þörunga sem eru verðmæt og setja þarf nýja gjaldskrá sem tryggir sanngjarnar tekjur vegna umferðar um hafnarmannvirkin.

 

Söfnin í bænum

Framlög Stykkishólmsbæjar til safnastarfsemi er veruleg upphæð þegar borið er saman við sambærileg sveitarfélög. Stykkishólmsbær greiðir kostnað við rekstur Vatnasafnsins, Eldfjallasafnsins, Amtsbókasafnsins, skólabókasafns og hluta kostnaðar við byggðasafnið í Norska húsinu á móti nágrannasveitarfélögunum. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu við upphaf þessa kjörtímabils var gert ráð fyrir því að sameina söfnin undir einn hatt og stofna safnaráð. Er áfram gert ráð fyrir því nema Amtsbókasafnið og skólabókasafnið verða rekin saman við hlið grunnskólans. Með sérstökum samningi við sveitarfélögin á Snæfellsnesi hefur Stykkishólmsbær tekið við rekstri Norska hússins og er þess að vænta að samstarfsaðilar við rekstur Vatnasafns og Eldfjallasafns gangi til samvinnu um að auka hagkvæmni eftir þeim leiðum sem færar eru við samruna safnanna í eina rekstrarlega heild. Það er mat bæjaryfirvalda að með slíku samstarfi eða samruna mætti með öflugu kynningarstarfi  auka aðsókn að söfnunum og um leið auka tekjur sem mætti nýta til enn frekari uppbyggingar á húsakosti safnanna. Opnunartími safnanna tekur mið af því hversu mikil áhersla er lögð á það hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu að hafa opna þjónustu allt árið. Sú skipan leiðir til hærri rekstrarkostnaði hjá söfnunum og er það í raun sérstakt framlag bæjarins til ferðaþjónustunnar í bænum.

 

Amtsbókasafn- stofnun mennta, menningar og upplýsingatækni rís við skólann.

Nýtt hús er risið við Grunnskóla Stykkishólms sem hýsir skólabókasafnið, ljósmyndasafnið  og almenningsbókasafnið. Amtsbókasafnið er stærsta einstaka verkefnið sem unnið er að á vegum bæjarins. Verkið var boðið út í byrjun ársins 2016 og er verkinu lokið. Með því að byggja yfir bókasöfnin og ljósmyndasafnið er stigið mikilvægt skref í því að efla bókmenningu og tengja hana skólanum þar sem í gangi er sérstakt átak við að efla læsi. Það átak að efla læsi er í samræmi við þann samning sem mennta- og menningarmálaráðherra gerði við foreldrafélög, grunnskóla og sveitarfélögin í landinu. Sameining bókasafnanna og efling þeirra er í samræmi við skólastefnu Stykkishólmsbæjar og er vissulega ástæða til þess að tengja saman starfið í skólanum og þá þjónustu sem almenningsbókasafnið hefur að bjóða. Skólinn á að geta nýtt húsnæði bókasafnsins og þar með er dregið úr þörfinni fyrir það húsnæði sem var ætlað að byggja fyrir grunnskólann austan við skólahúsið ásamt með tónlistarskólahúsi. Þau byggingaráform verða nú endurmetin í ljósi reynslunnar sem fæst af því að nýta aðstöðuna í Amtsbókasafninu. Þá er vert að vekja athygli á því hversu mikils virði það er að almenningur geti tengst skólastarfinu í gegnum þjónustu bókasafnsins og að nemendur geti kynnst góðu bókasafni og ljósmyndasafninu sem þarf að uppfæra og skrá sem best svo bæjarbúar eigi sem bestan aðgang að þeirri sögu um fólkið í bænum sem ljósmyndunum fylgir. Í Amtsbókasafninu er sérstök aðstaða til tölvuvinnslu sem á að ýta undir og nýta upplýsingatæknina í tengslum við bókasafnið og þó einkum við skólann.

 

Grunnskólinn viðhald og endurbætur.

Með því að færa skólabókasafnið losnar mikið rými sem nú er nýtt til kennslu og skapar skilyrði til þess að stækka vinnuaðstöðu fyrir kennara. Starfsaðstaðan í skólanum batnar því til muna. Í tengslum við þessar breytingar í skólanum var unnið að viðhaldi hússins, endurnýjun gólfefna og húsgagna. Áfram þarf að stefna að byggingu að austan við skólann þar sem á að koma viðbygging fyrir tónlistarskólann og sérkennslustofur. Með þeirri viðbót mun verða mikil hagræðing við það að bæði grunnskóli, tónlistarskóli og bókasöfnin verða tengd saman.  Þá er gert ráð fyrir því að endurskipuleggja og byggja upp skólalóðina. Verður að vinna það verkefni í þeim áföngum sem hagkvæmt er milli anna í skólanum.

 

Starfsemi Félags og skólaþjónustu er vaxandi.

Félags og skólaþjónusta Snæfellinga gegnir mikilvægu hlutverki og hefur sannað sig sem mikilvæg stofnun. Með sérstökum samningi hefur bæst við nýr þjónustuþáttur við fatlaðan einstakling svonefnd notendastýrð persónuleg aðstoð – NPA. Þar með er mikilvægum áfanga náð í því verkefni sem er lagaskylda sveitarfélaga við fatlaða einstaklinga. Jafnframt hefur Félags og skólaþjónustan undirbúið að byggja upp búsetu úrræði fyrir fatlaða einstaklinga á Snæfellsnesi. Þá er vert að geta þess að Félags og skólaþjónustan hefur samið við Skipavík hf. um að taka á leigu nýtt húsnæði fyrir starfsemi Ásbyrgis sem verður byggt á lóðinni Aðalgötu 22. Í Ásbyrgi rekur FSS vinnustofu/dagþjónustu- og hæfingarstöð fatlaðs fólk. Uns það verður tekið í notkun verður Ásbyrgi til húsa í Hafnargötu 7 þar sem áður var bókasafnið og þar áður skemma Kaupfélags Stykkishólms svo sem einhverjir muna. Það hús seldi bærinn Marz-Sjávarafurðum. Það verður til útleigu enn um hríð, vegna kærumála þeirra sem vildu koma í veg fyrir að bókasafnið kæmist í nýtt húsnæði og eigendur skemmunnar gætu rifið hana og byggt nýtt fallegt hús á lóðinni, sem félli að gömlu glæsilegu húsunum sem prýða miðbæinn.

 

Rekstur áhaldahúss bæjarins.

Nokkur áherslubreyting var gerð við rekstur áhaldahússins með því að hætt var rekstri gröfu en þess í stað samið við verktaka um alla gröfuvinnu. Jafnframt var hafin endurnýjun minni tækja með kaupum á dráttarvél og þjónustubifreið sem nýtast mun bæði áhaldahúsi og Stykkishólmshöfn.

 

Brunavarnaáætlun og bættur búnaður Slökkviliðs Stykkishólms og nágrennis.

Síðustu ár hefur verið unnið markvisst að endurnýjun á tækjakosti slökkviliðsins. Á síðasta ári var keyptur til landsins tankbíll sem lengi hefur verið beðið eftir og einnig endurnýjaðar bílaklippur. Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun að halda áfram endurnýjun búnaðar. Þá er þess að geta að lokið var fyrir stuttu við brunavarnaáætlun sem slökkviliðsstjórar og byggingarfulltrúi hefur unnið að og er mikilvægt framtak sem nú veðrur lögð fram í bæjarstjórn til afgreiðslu og fyrir Mannvirkjastofnun til staðfestingar.

 

Það er bjart framundan.

Svo sem að framan er getið þá er rekstrarleg og efnahagsleg staða Stykkishólmsbæjar ágæt. Lausafjárstaðan í ársbyrjun þessa árs er þrengri en var í byrjun síðasta árs vegna mikilla framkvæmda. Áætlun gerir ráð fyrir ásættanlegum rekstrarafgangi árið 2018 og skuldahlutfallið er vel viðunandi miðað við áform í fjárhagsáætlun. Næg atvinna er og vinnandi höndum fjölgar í bænum. Það er  bjart ár framundan ef áætlanir okkar og áform  ganga eftir.

 

Stykkishólmi, 12. janúar 2018

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar