Stök frétt

Pistill bæjarstjóra 27. október 2017

Álagning fasteignaskatts lækkuð í Stykkishólmi.

Á fundi bæjarstjórnar í gær 26.október 2017 var samþykkt tillaga sem áður var afgreidd í bæjarráði um að lækka álagningarhlutfall  fasteignaskattsins árið 2018. Fasteignamatið í Stykkishólmi  hefur hækkað verulega sem er afleiðing þess að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur aukist. Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis lækkar úr 0.50% af matinu í það að verða 0.48%. Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis lækkar frá því að ver 1.65% í 1.57%. Lóðarleiga íbúðarhúsnæðis lækkar einnig frá 1.18% í 1.10%.

 Þá var samþykkt að auka afslátt af fasteignagjöldum elli-og örorkulífeyrisþega. Sá afsláttur er tekjutengdur og verður hámark afsláttar kr.90.800 sem er 25% hækkun frá þessu ári.

 

Fjárhagsáætlun undirbúin og ný leikskóladeild opnuð

Þessa dagana er unnið að því að undirbúa gjaldahlið fjárhagsáætlunar og mun bæjarráð funda með forstöðumönnum stofnana í næstu viku, en fjárhagsáætlun verður unnin í nóvember mánuði. Þegar litið er yfir framkvæmdir bæjarins og margskonar endurbótaverkefni þessa árs má öllum vera ljóst að mikill árangur hefur náðst í því að styrkja stöðu bæjarins og skapa bjartsýni til sóknar og varnar í þágu samfélagins. Til marks um þá staðreynd er fjölgun nemenda í skólunum. Í næstu viku verður opnuð ný deilda á Leikskólanum sem hefur hlotið nafnið Bakki. Ég fagna þeim góða áfanga og býð nemendur velkomna í nafni bæjarins.

 

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri