Stök frétt

Ávarp Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra í tilefni þess að sextíu ár eru liðin frá stofnun leikskólans í Stykkishólmi

Hátíð í tilefni þess að sextíu ár eru liðin síðan St.Franciskussystur hófu rekstur barnaheimilis í Stykkishólmi.

Ávarp Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra.

                                                                           

Forseti Íslands Guðni Th Jóhannesson, frú Eliza Reid og fjölskylda, ágætu gestir.

Í nafni Stykkishólmsbæjar býð ég ykkur öll velkomin til afmælishátíðar í tilefni þess að 60 ár eru liðin frá því að  St. Franciskussystur hófu rekstur barnaheimilis  hér í Stykkishólmi.

Franciskusreglan reisti hér kirkju, klaustur og spítala og hóf starfsemi spítalans  í Stykkishólmi árið  1936. Systurnar ráku spítalann  með miklum ágætum allt til þess tíma að þær fóru héðan, kallaðar til verka í öðru landi  og seldu starfsemina alla til íslenska ríkisins árið 2006.

Þá höfðu systurnar staðið hér vaktina í þágu Snæfellinga heil 70 ár. Það var mikið lán að Franciskusreglan sendi systurnar hingað til starfa. Vissulega höfðu hér verið um aldir sterk áhrif   Evrópskar menningar  vegna viðskiptasambanda bæði við Þjóðverja og Dani. Danir  settu hér mikinn svip á samfélagið á nítjándu öld og byrjun þeirrar tuttugustu.

Franciskussystur komu því hér inní samfélag sem var markað þeirri menningu sem segja má að hafi verið skipulögð af Amtmanni Vesturamtsins, Bjarna Thorsteinssyni, sem var fyrsti forseti hins endurreista Alþingis og hafði sterk sambönd í stjórnsýslunni í þáverandi höfuðborg okkar Íslendinga Kaupmannahöfn. Hann sá til þess að hér var stofnað Amtsbókasafn til þess að efla bókmenningu, hér var héraðslæknirinn og opnað var Apótek,  sett niður  sýslumannsembætti og siglingar póstskipsins látnar tryggja samgöngur þess tíma.

Franciskussystur komu því inn í samfélag sem var jákvætt gagnvart erlendum áhrifum og menningarstraumum. 

Eftir að hafa starfrækt spítalann í tvo áratugi sáu systurnar að hér var þörf fyrir barnaheimili. Í fyrstu, eða frá árinu 1957, var Barnaheimili systranna sumardvalarheimili  en þróaðist til þess að verða fullgildur  leikskóli fyrri börn undir skólaskyldualdri og rekinn í samstarfi við Stykkishólmsbæ frá árinu 1980.

Systurnar ráku Spítalaskólann eða SPÍTÓ svo sem hann var kallaður í daglegu tali allt til ársloka 2006 þegar nýtt glæsilegt leikskólahús var tekið í notkun hjá bænum.

Þessa sögu vildi ég rekja hér við upphaf afmælishátíðar og draga athyglina að þeirri einstöku staðreynd að í okkar litla samfélagi skuli hafa verið veitt þvílík þjónusta við barnafjölskyldur sem vart þekktist í öðrum sóknum.

Og til heiðurs þeirri stefnu systranna að svo ungum börnunum væri gert hátt undir höfði  og skapað gott skjól í skóla var tekin ákvörðun um það í bæjarstjórn  fyrr á þessu ári að stækka núverandi leikskóla á þann veg að öll börn geti notið skólavistar í anda systranna allt frá 12 mánaða aldri til þess tíma að grunnskólanám hefst. Hér eiga ekki að vera biðlistar í leikskóla frekar en aðra skóla.  

Um leið og ég þakka skólastjóra Leikskólans Sigrúnu Þórsteinsdóttur og samstarfsfólki hennar í afmælisnefndinni fyrir frábært starf við að undirbúa þessa afmælishátíð vil ég biðja Sigrúnu að taka við stjórn samkomunnar. Ég býð  ykkur aftur  öll velkomin og þá sérstaklega fjölskyldu Forseta Íslands sem gerir okkur þann heiður að ver með okkur hér í dag.