Stök frétt

22.maí árið 1987: Stykkishólmur fær bæjarréttindi og fyrsta skóflustungan tekin að byggingu Íþróttamiðstöðvar

Stykkishólmur fær bæjarréttindi og fyrsta skóflustungan tekin að byggingu Íþróttamiðstöðvar

 

Það var mikið um að vera í Stykkishólmi 22.maí árið 1987. Þann dag tók þáverandi menntamálaráðherra Sverrir Hermannsson fyrstu skóflustunguna að Íþróttamiðstöðinni og afhenti jafnframt þáverandi sveitarstjóra Sturlu Böðvarssyni  samning sem hafði verið gerður milli menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Stykkishólmsbæjar um framlag ríkissjóðs til byggingarinnar. Þessi samningur  skipti bæinn miklu máli og það hafði tekið langan tíma að koma á samningi og tryggja fjármuni til verksins. Til þess að tryggja framvindu framkvæmdanna veitti Búnaðarbankinn lán gegn veði í samningnum. Það tók tæp þrjú ár að fullgera Íþróttahúsið.

 

Þennan sama dag staðfesti þáverandi félagsmálaráðherra tilskipun um bæjarréttindi Stykkishólmshrepps sem þar með varð Stykkishólmsbær frá þeim degi. Það var raunar tilviljun að þessir atburðir gerðust á sama degi.

 

Það var síðan 10. Júní 1987 sem bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hélt sinn fyrsta fund og hreppsnefnd Stykkishólmshrepps sinn síðasta. Það var mikið um dýrðir og bæjarstjórn efndi til samkomu í Hótel Stykkishólmi þar sem voru mættir þingmenn kjördæmisins, félagsmálaráherrann, starfsfólk bæjarins og ýmsir fleiri.

Fyrsta fundi bæjarstjórnar sem haldinn var í Félagsheimilinu stýrði Ellert Kristinsson þá orðinn forseti bæjarstjórnar. Í bæjarstjórn sátu Ellert Kristinsson, Kristín Björnsdóttir Magndís Alexandersdóttir, Gunnar Svanlaugsson, Guðmundur Lárusson, Einar Karlsson og Pétur Ágústsson. Sturla Böðvarsson var bæjarstjóri.