Stök frétt

Vikupistill bæjarstjóra 17. maí 2017

Vikupistill bæjarstjóra

 

Ársreikningur  Stykkishólmsbæjar fyrir árið  2016 afgreiddur með ágætum hagnaði.

Ástæða er til þess að fagna því að rekstur bæjarins skilar ágætum hagnaði árið 2016 og er í fjárhagsáætlun gert ráð fyrir að svo verði einnig árið 2017.

Hefur því skilað sér það starf hagræðingar en um leið uppbyggingar og  framfarasóknar í bæjarfélaginu sem sett var af stað strax í byrjun kjörtímabilsins. Árangur af því starfi skilar sér í ársreikningi 2016  með 53,9 milljón króna hagnaði af A-hluta bæjarsjóðs og 43,7 milljón króna hagnaði af A og B-hluta saman.

 

Betri rekstur og bætt fjármálastjórn leiðir til þess að í árslok eru 161milljón króna handbært fé frá rekstri og tæpar 73 milljónir í handbæru fé í sjóðum við  árslok sem er mikill viðsnúningur frá því sem var á síðasta kjörtímabili.

Þessi árangur næst þrátt fyrir að í fyrsta skipti er dvalarheimili og þjónustuíbúðir gerðar upp sem B-hlutafyrirtæki hjá bænum en þær einingar eru því miður reknar með halla. Stefnt er að því að samrekstur eldhússins í sjúkrahúsinu fyrir skólann og dvalarheimilið skili sér í betri afkomu stofnana á þessu ári og í framtíðinni verði hjúkrunardeildin á dvalarheimilinu færð í sjúkrahúsið og rekin á ábyrgð ríkisins svo sem lög gera ráð fyrir. Núverandi húsnæði dvalarheimilisins mun þá verða  breytt í leiguíbúðir fyrir aldraða.       

 

Það sem ræður úrslitum um þennan árangur í rekstri Stykkishólmsbæjar er að stórum hluta fjölgun nýrra íbúa sem hafa trú á Stykkishólmi og hafa því flutt til okkar og greiddu útsvar og njóta þjónustu. Þá skiptir miklu máli hækkun framlaga úr Jöfnunarsjóði, strangt aðhald í rekstri og  hagnaður af rekstri Stykkishólmshafnar. Bættur rekstur hafnarinnar stafar frá aukinni umferð um höfnina, auknum tekjum af ferjusiglinum og þjónustu við skemmtiferðaskip. Skemmtiferðarskipum hefur fjölgað í kjölfar þess að Stykkishólmshöfn gerðist aðili að Cruse Iceland sem eru samtök hafna sem taka á móti skemmtiferðaskipum.

 

Hækkun tekna af útsvari og fasteignaskatti er tæp  12% milli áranna 2015 og 2016 rekstrargjöld hækka um 5% . Álagningarhlutfall fasteignaskatts er óbreytt á milli ára en útsvar var lækkað árið 2015 og 2016  í 14,37% en var áður 14.52%

 

Skuldaviðmið lækkaði og er 121% árið 2016 þrátt fyrir yfirtöku skulda vegna dvalarheimilis og þjónustuíbúða.

Skuldaviðmið A og B- hluta árið 2016 er  121 % af skatttekjum en var 128% árið 2015, 136% árið 2014 og 153% árið 2013. Rekstrarjafnvægi áranna 2014-2016 er jákvætt um 28,7 milljónir króna.

Þessi staða gerir það að verkum að Stykkishólmsbær hefur gott lánstraust og er ekki í vandræðum með að fjármagna þær framkvæmdir sem blasa við svo sem framkvæmdir í hjúkrunardeild Sjúkrahússins, framkvæmdir við stækkun leikskólans, framkvæmdir við hafnargerð vegna iðnaðarstarfsemi í Skipavík,  framkvæmdir við gatnagerð í Víkurhverfi,  Reitarveg og við við Vatnaás.

Á næstunni verða teknar ákvarðanir um næstu skrefin við  áframhaldandi uppbyggingu. Það eru áhugaverði verkefni í þágu allra bæjarbúa.

 

17. maí 2017


Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri