Vikupistill bæjarstjóra við upphaf ársins 2017

Vikupistill bæjarstjóra við upphaf ársins 2017

Vikupistill bæjarstjóra við upphaf ársins 2017

 

Þegar litið er yfir verkefni síðasta árs og stöðuna sem er framundan hjá Stykkishólmsbæ er af ýmsu að taka hvað varðar uppbyggingu  og  bætt búsetuskilyrði.  Það má halda  því fram að  besti mælikvarðinn um verk okkar og árangur árið 2016 sé sú ánægjulega staðreynd  að íbúum hefur fjölgað nokkuð umfram  landmeðaltal og hlutfallslega  meira en er víðast á  landsbyggðinni. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands áttu 1168 íbúar  lögheimili í Stykkishólmi 1. desember 2016 og er það 4.5% fjölgun frá því sem var í desember 2015.

Heiðursborgari kvaddur

Ágúst Bjartmars heiðursborgari okkar og fyrrverandi oddviti sveitarstjórnar var kvaddur hinstu kveðju 30. desember s.l. frá Stykkishólmskirkju. Hann var vandvirkur sveitarstjórnarmaður, mikill íþróttamaður og virkur í félagsstörfum. Ég kynntist því vel af samstarfi við hann hversu framganga hans í sveitarstjórn var einstaklega málefnaleg og traust. Það átti raunar við allan þann hóp sem ég vann með samtíða Ágústi. Það var litið á starfið í hreppsnefnd og síðan bæjarstjórn sem verkefni liðsheildar. Það var tekist á í kosningum, en síðan var ein samhent sveit sem vann að sama markmiði sem var hagsmunagæsla og framfaravilji í þágu samfélagsins.

 

Betri rekstur og bættur efnahagur bæjarins

Fyrri hluti yfirstandandi kjörtímabils fór í það verkefni að endurstilla rekstur bæjarins, gera skipulagsbreytingar og móta þau verkefni sem bæjarstjórn hefur tekið ákvörðun um að verði forgangsverkefni. Vegna kjarasamninga varð nokkur aukning á útgjöldum umfram áætlun  sem var mætt með skipulagsbreytingum, sparnaði og auknum tekjum auk þess að eignasala kom til móts við fjárfestingarkostnað.   Skuldahlutfallið sem hafði verið mjög hátt í upphafi síðasta kjörtímabils og var um tíma yfir 150% mörkunum sem sveitarstjórnarlög setja sem leyfilegt hámark hefur lækkað. Skuldahlutfallið var tæp 115% árin 2015 og 2016 og er áætlað að vera 119,7% árið 2017 þrátt fyrir nokkra fjárfestingu. Rekstur A og B hluta bæjarsjóðs hefur verið jákvæður og því innan marka svonefndrar jafnvægisreglu sem krafist er í sveitarstjórnarlögum. Þannig má segja að rekstur og efnahagur bæjarsjóðs sé traustur en því miður hafa daggjöld ekki staðið undir  rekstri Dvalarheimilis aldraðra og skuldir safnast upp vegna þess. Á  en á því hefur orðið veruleg bragarbót með því að sérstök fjárveiting fékkst til hækkunar daggjöldum auk þess sem ríkissjóður tók yfir lífeyrisskuldbindingar starfsmanna dvalar og hjúkrunarheimila. Unnið er að uppgjöri þeirra aðgerða.    

 

Styrkir til félagsstarfs.

Það sem af er þessu kjörtímabili hefur bæjarstjórn lagt áherslu á að koma til móts við félagasamtök. Þar ber að nefna að að samið var við sóknarnefnd Stykkishólmskirkju  um sérstakar greiðslur til Stykkishólmssafnaðar vegna afnota stofnana bæjarins af aðstöðu í  kirkjunni. Þannig var með því framlagi unnt að kosta bráðnauðsynlegar viðgerðir á kirkjunni. Þá var veittur sérstakur styrkur til Körfuknattleiksdeildar Snæfells árið 2015 umfram hinn almenna styrk sem var jafnframt hækkaður. Styrkurinn gaf félaginu færi á að endurskipuleggja starfsemina. Golfklúbburinn Mostri  sér um rekstur Tjaldstæðisins og aflar þannig klúbbnum tekna um leið og veitt er þjónusta við ferðamenn sem færir einnig tekjur til bæjarins svo standa megi undir kostnaði. Síðast en ekki síst var veittur umtalsverður styrkur til Hestaeigendafélagsins til byggingar reiðskemmu sem hafði verið lengi á döfinni. Styrkurinn til HEFST nemur nærri  18 milljónum króna þegar talin eru með byggingarleyfisgjöld en þeim var bætt við styrkinn.

 

Hugað að stækkun Leikskóla og leikvellir endurbættir

Barnafjölskyldur í Stykkishólmi njóta þess að börn eru tekin inn í leikskólann 12 mánaða gömul.  Það er meiri þjónusta en víðast er veitt. Fjölgun barna á leikskólaaldri fylgir íbúafjölguninni og  kallar nú á stækkun leikskólans. Í fjárhagsáætlun ársins 2017 er gert ráð fyrir því að hefja hönnun og undirbúning þess að setja upp eina deild til viðbótar. Sú viðbót gæti verið byggð upp með því að setja upp lausa stofu. Slík framkvæmd  gæti tekið stuttan tíma.   Viðhald opinna leikvalla í bænum  hafði ekki verið nægjanlega sinnt mörg undanfarin ár. Í samstarfi við Rólóvinafélagið hefur verið hafið viðhald og endurnýjun leiktækja. Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun næsta árs að gera verulega bragarbóta á þeim leikvöllum sem eru til staðar í misgóðu ástandi. Með áætlun um stækkun leikskóla og endurbætur leikvalla er komið til mótsvið þá þörf sem blasir við.

 

Breytingar við rekstur Dvalarheimilis aldraðra og samstarf við Sjúkrahús HVE

Eins og þekkt er og margrætt er stefnt að sameiningu dvalarheimilisins og Sjúkrahúsi HVE með því að færa hjúkrunardeild Dvalarheimilis á nýja endurbyggða hjúkrunardeild í sjúkrahúsinu.  Með þeirri aðgerð er stefnt að því að bæta mjög alla aðstöðu fyrir þá sem þurfa að njóta þjónustu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Fyrsti áfangi þessara breytinga hófst s.l. haust  þegar eldhúsin voru sameinuð og öll matreiðsla fyrir dvalarheimilið og skólana færð í eldhús Sjúkrahúss  HVE. Með samstarfi Stykkishólmsbæjar, Heilbrigðisráðuneytis, Sjúkrahúss HVE og Framkvæmdasýslu ríkisins hefur verið unnið að endurskipulagningu og hönnun breytinga á hjúkrunardeildum sjúkrahússins sem og öðrum endurbótum á sjúkrahúsinu sem m.a. tengjast Bakdeildinni. Í fjárlögum ársins 2017 var samþykkt fjárveiting til endurbóta á hjúkrunarheimilum og er hjúkrunardeild HVE í Stykkishólmi annað tveggja verkefna sem þar er tilgreint. Samkvæmt áætlun munu breytingar á sjúkrahúsinu kosta kr.582.000.000,- sem er umtalsvert lægri upphæð en áætlun frá 2011 gerði ráð fyrir og unnið var eftir allar götur til ársins 2014 þegar fallið var frá því að fara þá leið við að endurnýja sjúkrahúsið. Þeirri áætlun sem átti að kosta  1.3 milljarðar  varð ekki komið í gegnum ráðuneytin á sínum tíma. Því varð að byrja að nýju þegar núverandi bæjarstjórn tók við vegna þess að fyrri áætlun var ekki samþykkt. Þau hátimbruðu áform seinkuðu verkefninu miðað við ef núverandi áætlun hefði strax verið valin. Samkvæmt fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar er gert ráð fyrir því að þegar hjúkrunardeildin hefur verið færð í sjúkrahúsið verði gömlu heimavistinni sem þjónar í dag sem Dvalarheimili aldraðra breytt í íbúðir. Þær íbúðir verði leigðar út með svipuðum hætti og íbúðirnar sem eru fyrir. Matsalurinn verði nýttur fyrir félagsstarf aldraðra og einnig  til þess að þjóna sem matsalur fyrir þá sem búa í þjónustuíbúðunum og vilja kaupa mat frá eldhúsi sjúkrahússins. Vonandi ganga þessi áform eftir en öllum má ljóst vera að það þolir ekki lengri bið að gera úrbætur á hjúkrunaraðstöðunni fyrir aldraða þrátt fyrir heimilislegar aðstæður og einstaklega hæft fólk sem sinnir öldruðu heimilisfólki við erfiðar aðstæður. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að færa „Heimavistina“ strax á þessu ári inn í rekstrareininguna sem sér um þjónustuíbúðirnar og er því samkvæmt fjárhagsáætlun hluti af eignabreytingum innan bæjarkerfisins.

 

Vinna við deiliskipulag

Gert er ráð fyrir því að ljúka á þessu ári vinnu við  deiliskipulag íbúðabyggðar á Vatnsási vestan Tjaldsvæðis og upp með þjóðveginum, en það er nánast fullgert skipulag og gæti komið til úthlutunar innan tíðar. Deiliskipulagi blandaðrar byggðar við Reitaveg er nánast lokið. Deiliskipulag miðbæjar og hafnarsvæða sem og athafnasvæðis þar sem hótel á að rísa við Móvík innan við Víkursvæðið er á lokastigi. Það er vissulega mikil gróska í bænum og því mikilvægt að sinna vel skipulagi þeirra bæjarhluta sem hafa verið valdir sem uppbyggingarsvæði.

 

 

Íbúafundir um atvinnumál og skipulagsmál

Á síðasta ári var efnt til íbúafundar um skipulagsmál. Þar voru kynntar skipulagstillögur af miðbæjarsvæði  og hafnarsvæði Skipavíkurhafnar sem og Stykkishafnarsvæðinu. Sá fundur heppnaðist vel og er stefnt að því að efna til annars fundar fljótlega á þessu ári. Þar verði einnig  fjallað um atvinnumál og uppbyggingu í tengslum við ný atvinnutækifæri sem stefnt er að með enn frekari nýtingu náttúruauðlinda sem má nýta í Breiðafirði sem og uppbyggingu í sjávarútvegi sem gæti orðið veruleg þegar skelveiðar hefjast að nýju í meira mæli en sem nemur tilraunaveiðunum sem hafa verið stundaðar og lofa góðu. Síðast en ekki síst verður fjallað um mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu sem er fyrirhuguð  og þá þróun að veita heimild til rekstrarleyfa vegna gistiaðstöðu í  íbúðarhúsahverfum.  Þá er gert ráð fyrir því að fjalla um nauðsyn nýsköpunar í samstarfi við atvinnulífið. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir fjárframlagi til stuðnings við nýsköpunarverkefni sem unnin verði í samstarfi við atvinnulífið í bænum. Það gæti verið nefnt „Startup Stykkishólmur“ til samræmis við önnur svipuð verkefni sem hafa verð sett af stað. Íbúafundurinn verður kynntur fljótlega.

 

Úthlutun lóða

Auglýstar hafa verið lóðir fyrir íbúðarhús á Víkursvæði austan við golfvöllinn. Á heimasíðu bæjarins er einnig vakin athygli á lausum lóðum hér og þar í bænum bæði fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði. Er ástæða til þess að vekja athygli á því að á þessum svæðum eru mjög álitlegar byggingarlóðir og því má ætla að framkvæmdir við húsbyggingar muni aukast.

    

Framkvæmdir  við gatnagerð og endurbygging gangbrauta

Viðhald og endurnýjun gatna og gangstétta er viðvarandi verkefni sem mikilvægt er að sinna vel svo ásýnd bæjarins skaðist ekki vegna slitinna og  holóttra akbrauta og sundursprunginna gangstétta svo sem víða hafði gerst.  Á síðast ári náðist nokkur áfangi í þessu viðhaldi sem var vel metið af bæjarbúum miðað við þau viðbrögð sem urðu þegar framkvæmdum lauk við breytingar á Víkurgötu og endurbætur á Aðalgötu við gatnamót Borgarbrautar ásamt endurgerð gangstétta. Stefnt að því að halda áfram og taka til við malbiksframkvæmdir og gangstéttasteypu strax og vorar. Hluti þess að byggja upp gatnakerfið eru nýbygging gatna sem þarf að undirbúa og er hluti af þeim framkvæmdum sem er gert ráð fyrir að hefja vegna nýrra gatna í Víkurhverfi og tengibraut  inn að hótellóðinni sem búið er að úthluta í Skothúsmýri milli Móvíkur og Sundvíkur.  

 

 

Rekstur og eignarhald lagnakerfis

Á sínum tíma var talið hagkvæmt fyrir bæinn  að selja Orkuveitu Reykjavíkur bæði hitaveitu og vatnsveitu. Ekki er að efa að það var rétt ákvörðun og hagfelld  fyrir íbúa bæjarins. Verðlagning hitaveitu er hagstæð  en verðlagning  á kalda vatninu hefur verið hærri en góðu hófi gegnir. Eftir gagnlegar viðræður og  samskipti við stjórnendur Veitna ehf. sem er dótturfyrirtæki OR var verðið  á kalda vatninu lækkað um 8.8% frá 1.1.2017. Eftir ákvörðun bæjarstjórnar eru nú hafnar viðræður um þann möguleika að Veitur ohf. taki við rekstri fráveitunnar. Það blasir við að ekki er hagkvæmt að tveir aðilar sinni rekstri og uppbyggingu lagnakerfanna í götunum. Þess er vænst að samningar takist við Veitur ohf . um að fyrirtækið  taki yfir og kaupi allt holræsakerfið  og skapi þannig enn aukna hagkvæmni við rekstur veitukerfanna í bænum, sem ætti að geta verið öllum til hagsbóta, bæði Veitum ohf og bæjarbúum.

 

Viðhald húseigna

Fasteignir í eigu bæjarins þarfnast stöðugs viðhalds. Nokkur stór verkefni bíða og hafa beðið lengi svo sem viðgerðir Eldfjallasafnsins sem er mjög aðkallandi. Þá er komið að  viðgerðum og viðhaldi útisundlaugar  í Íþróttamiðstöðinni. Í fjárhagsáætlun 2017 eru settir nokkrir fjármunir til viðhaldaverkefna og verður að gera ráð fyrir enn frekari fjárútlátum næstu árin.

 

 

Nýr samningur við Íslenska Gámafélagið

Vönduð og umfangsmikil flokkun sorps í Stykkishólmi hefur vakið athygli víða og í raun aðdáun þeirra sem leggja áherslu á umhverfismál í víðasta skilningi þess málaflokks. Frumkvöðlar þess verkefnis eiga heiður skilið fyrir framsýni og framkvæmd alla.  Á síðast ári var gerður nýr samningur við Íslenska Gámafélagið sem sér um sorphirðu í bænum. Þessi samningur felur í sér nokkra lækkun á  einingaverðum og því sparnað gagnvart bænum, sem veitir ekki af því kostnaður er allnokkur miðað við það, sem gerist hjá þeim sveitarfélögum sem leggja minni áherslu á flokkun , moltugerð og vandaða urðun. Jafnframt var samið um að   Íslenska Gámafélagið reisi flokkunarskemmu á athafnasvæði sorphirðunnar við Snoppu sem fyrirtækið byggir fyrir eigin reikning. Það er því að vænta enn vandaðri vinnu við flokkun og meðferð sorpsins sem fellur til og þarf að flokka og koma fyrir í samræmi við vandaðar verklagsreglur.

 

 

Höfnin

Í gildandi Samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að dýpka Stykkishöfnina við steinbryggjuna og allt innra hafnarsvæðið. Ekki liggur enn fyrir hvort fjárveiting fæst til verksins en í fjárhagsáætlun 2017 er þetta verkefni fjármagnað að þeim hluta sem tilheyrir hafnarsjóði. Þá er gert ráð fyrir fjárframlagi til framkvæmda við Skipavíkurhöfn vegna áforma um stækkun hafnarsvæðis fyrir enn frekari iðnaðarstarfsemi í Skipavík. Er þar um að ræða áform Skipavíkur um aukna starfsemi og ekki síst áform Deltagen Iceland  í samstarfi við Matís um nýtingu þangs og þörunga úr Breiðafirði til framleiðslu verðmætra efna. Verði það verkefni sett af stað þarf að huga að enn stærri framkvæmd við hafnargerð og verður þá að stokka framkvæmdaáform upp og leita eftir fjárveitingu til þess verks í samræmi við áætlun sem vinna þarf í samstarfi við framkvæmdaaðila. Miklu skiptir um stöðu hafnarinnar til þess að fara í framkvæmdir að höfnin er nú rekin með hagnaði.

 

Söfnin í bænum

Framlög Stykkishólmsbæjar til safnastarfsemi er veruleg upphæð þegar borið er saman við sambærileg sveitarfélög. Á vegum bæjarins er greiddur kostnaður við rekstur Vatnasafnsins, Eldfjallasafnsins, Amtsbókasafnsins, skólabókasafns og hluti kostnaðar við Byggðasafnið í Norska húsinu á móti nágranna sveitarfélögunum. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu við upphaf þessa kjörtímabils var gert ráð fyrir því að sameina söfnin undir einn hatt og stofna safnaráð. Er áfram gert ráð fyrir því nema Amtsbókasafnið og skólabókasafnið verða rekin saman  við hlið grunnskólans. Stefnt er að því að Stykkishólmsbær taki við rekstri Norska hússins og er þess að vænta að samstarfsaðilar við rekstur Vatnasafns og Eldfjallasafns gangi til samvinnu um að auka hagkvæmni eftir þeim leiðum sem færar eru við samruna safnanna í eina rekstrarlega heild. Það er mat bæjaryfirvalda að með slíku samstarfi eða samruna mætti með öflugu kynningarstarfi  auka aðsókn að söfnunum og um leið auka tekjur sem mætti nýta til enn frekari uppbyggingar á húsakosti safnanna.

 

Bygging Amtsbókasafns við skólann

Nýtt hús við Grunnskóla Stykkishólms sem á að hýsa skólabókasafnið og Amtsbókasafnið er stærsta einstaka verkefnið sem unnið er að á vegum bæjarins. Verkið var boðið út í byrjun síðasta árs og er gert ráð fyrir því að verktakinn Skipavík hf. skili húsinu fullbúnu í september á þessu ári. Með því að byggja yfir Amtsbókasafnið, skólabókasafnið og Ljósmyndasafn Stykkishólms er stigið mikilvægt skref í því að efla bókmenningu og tengja hana skólanum þar sem í gangi er sérstakt átak í að efla læsi. Það átak er í samræmi við þann samning sem mennta-og menningarmálaráðherra gerði við foreldrafélög, grunnskóla  og sveitarfélögin í landinu. Sameining bókasafnanna og efling þeirra er í samræmi við skólastefnu Stykkishólmsbæjar og er vissulega ástæða til þess að tengja saman starfið í skólanum og þá þjónustu sem almenningsbókasafnið hefur að bjóða. Skólinn á að geta nýtt húsnæði bókasafnsins og þar með er dregið úr þörfinni fyrir það húsnæði  sem var ætlað að byggja fyrir grunnskólann austan við skólahúsið ásamt með Tónlistarskólahúsi. Þau byggingaráform verða nú endurmetin í ljósi reynslunnar sem fæst af því að nýta aðstöðuna í Amtsbókasafninu. Þá er vert að vekja athygli á því hversu mikils virði það er að almenningur geti tengst skólastarfinu í gegnum þjónustu bókasafnsins og að nemendur geti kynnst góðu bókasafni og ljósmyndasafninu sem þarf að uppfæra og skrá sem best svo bæjarbúar eigi sem bestan aðgang að þeirri sögu um fólkið í bænum sem ljósmyndunum fylgir.   

 

Breytingar í starfsliði bæjarins

Á síðast ári varð svo sem verða vill nokkur breyting á starfsliði bæjarins. Um leið og þeim er þakkað sem hættu störfum eru nýir liðsmenn boðnir velkomnir til starfa hjá Stykkishólmsbæ.

 

Fjárhagsáætlun

Svo sem að framan er getið þá er rekstrarleg og efnahagsleg staða Stykkishólmsbæjar sterk. Lausafjárstaðan í ársbyrjun þessa árs er mjög góð, áætlun gerir ráð fyrir ásættanlegum  rekstrarafgangi og skuldahlutfallið  er vel viðunandi miðað við áform í fjárhagsáætlun. Það er því bjart ár framundan ef áætlanir okkar ganga eftir.

 

Stykkishólmi, 3. janúar 2017

 

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar