Vikupistill bæjarstjóra 16. desember 2016

Vikupistill bæjarstjóra 16. desember 2016

Vatnsskattur lækkar um 8.8% í Stykkishólmi

 

Eins og þekkt er þá er Hitaveita Stykkishólms og Vatnsveita Stykkishólms í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur falið félaginu Veitum ohf. að sjá um reksturinn. Það hefur legið fyrir að vatnsskattur væri nokkuð  hár hér í Stykkishólmi. Í stefnuskrá H-listans var sérstaklega fjallað um þetta atriði og lögð áhersla á hóflega gjaldsskrá vegna neysluvatnsins. Í viðræðum við stjórnendur Veitna ohf.  hefur verið rætt um gjaldskrármál  og komið á framfæri ábendingum, en mjög gott samstarf er við stjórnendur Veitna ohf. um hvað eina, sem varðar rekstur bæði hitaveitu og vatnsveitu.  Nú hafa stjórnendur Veitna ohf. tekið ákvörðun um að  lækki  fermetragjaldið í vatnsskattinum  um heil 8.8%. Lækkunin tekur gildi um áramót.

Þessi lækkun á kalda vatninu skiptir máli fyrir notendur hér í bænum og  gerir það hagfelldara að búa í Stykkishólmi . Vert er að geta þess að hitaveitan í Stykkishólmi  kostar notendur það sama á  orkueiningu og í Reykjavík sem er ein hagstæðasta hitaveita á landinu. Það er vissulega óhætt að halda því fram að það sé  „gott að búa í Stykkishólmi“  svo sem ágætur bæjarstjóri sagði um annað bæjarfélag þegar hann vildi draga fram kosti þess. Þessi lækkun á vatnsskattinum skiptir máli og ber að meta í því ljósi.

 

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólms