Stök frétt

Ávarp bæjarstjóra Stykkishólms í Hólmgarði þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu frá vinabæ okkar Drammen í Noregi 9.desember 2016

Ágætu bæjarbúar.

Í nafni bæjarstjórnar býð ég ykkur velkomin. Á þessum fallega degi á aðventu fögnum við því að jólahátíðin er framundan.

Við hittumst hér í Hólmgarði með táknrænum og hefðbundna hætti til þess að kveikja ljósin á Þessu fallega jólatré sem vinir okkar í Drammen hafa sent yfir hafið og var höggvið í Norskum skógi  sem tákn um vináttu okkar og gott samband innan norrænu vinabæjakeðjunnar.

Með þessari athöfn vilja bæjaryfirvöld í Stykkishólmi draga athyglina að jólahaldinu og helgi Jólanna, en um leið skerpa á því einstaka samstarfi við íbúa Drammen og um leið við íbúa vinabæja okkar í Kolding í Danmörku, Örebro í Svíðþjóð  og Lappenranta eða Vildmandstrand í Finnlandi en þar verður  mót vinabæja á næsta ári árið 2017 og síðan hér í Stykkishólmi árið 2019.

Á vinabæjarmótum eflum við  samband okkar og þar er  lagt á ráðin um bætt samfélag. Reynslu fulltrúa vinabæjanna  er teflt fram til þess að miðla- og um leið að læra það sem best er gert á  norrænum vettvangi á sviði sveitarstjórnarmála og hverskonar samskipta um uppbyggingu. Þannig er vinabæjasamstarfið notað til þess að  efla þessar Norrænu byggðir sem vilja standa saman í þeirri ógnvekjandi veröld sem sumar þjóðir eru að upplifa.

Hið Norræna samstarf er okkur Íslendingum mikilvægt. Innan vébanda Norðulandaráðs vinnum við með frændum okkar og vinum og þar er mótað og eflt það norræna samfélagsmynstur sem svo vel hefur reynst í þágu velferðar og menningarmála jafnt hér á Íslandi sem hinum norðurlöndunum.

Ég vil þakka öllum þeim  sem hafa komið að því að gera þessa stund svo ánægjulega og þá ekki síst vinum okkar í Drammen. Við höfum notið stuðnings  Kvenfélagsins hér í Freyjulundi , Lúðrasveitin leikur hér af sinni alkunnu snilld og hér mun verða sungið undir stjórn Hólmfríðar Friðjónsdóttur.  Starfsmenn Áhaldahúss hafa sett upp tréð  og Grunnskólinn  leggur til fríðan hóp nemenda úr 1..bekk undir stjórn Steinunnar Maríu Þórsdóttur kennara bekkjarins. Þau munu nú tendra ljósin á Jólatrénu frá Drammen. Við sendum bestu jólakveðjur héðan úr Hólmgarði til þeirra bæjarbúa sem ekki eig þess kost að vera með okkur sem og til vina okkar í Drammen. Ég vil biðja  Agnesi Sigurðardóttur íþrótta og tómstudafulltrúa að leiðbeina  nemendum og kennara að jólaljósunum og þakka henni fyrir að skipulegja þessa stund svo veglega.  

Gleðilega aðventu- og jólahátíð.

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri