Stök frétt

Vikupistill bæjarstjóra - Íbúum fjölgar í Stykkishólmi

 

Samningar við Félag grunnskólakennara.

Í lok vikunnar sat ég fund sem Samband íslenskra sveitarfélaga efndi til þar sem samningur við Félag grunnskólakennara var kynntur. Samningurinn færir kennurum allnokkrar kjarabætur sem er auðvitað gott fyrir kennara en á móti verða sveitarstjórnir að forgangsraða í rekstrinum og skera niður einhverja liði á móti þessari hækkun launakostnaðar. En þannig gerast kaupin á eyrinni og við höfum treyst samninganefnd Sambandsins fyrir samningsumboðinu og verðum að standa við það sem samið er um. Við í Stykkishólmi erum heppin að hafa gott vel menntað kennaralið og skólinn hefur verið byggður vel upp hvað innra starf varðar á undangengnum árum og þar ríkir góður andi. Og á næsta ári bætist við góð aðstaða fyrir skólastarfið þegar Amtsbókasafnið tengist skólahúsinu og í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að taka fyrsta áfanga við að endurnýja húsgögnin í skólanum bæði stóla og borð sem eru komin til ára sinna og þarfnast endurnýjunar. Með fjárframlögum til skólans viljum við undirstrika þá áherslu sem við leggjum á skólastarfið, starfsaðstöðu kennara  og um leið menntun barnanna. Þær ákvarðanir eru í samræmi við Skólastefnu Stykkishólms sem unnin var af stórum hópi fagfólks og samþykkt af bæjarstjórn á þessu ári.

 

Fjárhagsáætlun 2017 mótar bjartari framtíð í bænum.

Meirihluti bæjarstjórnar hefur lagt ríka áherslu á uppbyggingu og endurreisn. Það er gert með því að  skapa að nýju þá bjartsýni sem á að geta verið drifkraftur í hverju samfélagi. Það hefur leitt til þess að ungt vel menntað fólk er að sækja til bæjarins.  Bæjarstjórn hefur mótað þá stefnu að leggja áherslu á atvinnuuppbyggingu sem byggi á auðlindanýtingu og aukinni ferðaþjónustu, á bætta almannaþjónustu og aukna fjárfestingu bæjarins innan þeirra heimilda  og þess fjárhagslega rýmis sem við höfum skapað vegna aukinna tekna, hagræðingar og fjölgunar íbúa sem eru í dag 1163 sem er hvorki meira né minna en 4.5% fjölgun frá fyrra ári. Jafnframt er mótuð skýr stefna sem birtist m.a. í Menningarstefnu Stykkishólmsbæjar og Skólastefnu Stykkishólmsbæjar sem stofnunum bæjarins er ætlað að vinna eftir. Þau framkvæmdaverkefni sem tillaga að fjárhagsáætlun byggir að mestu á eru þessi sem hér eru talin.

Samstarf Grunnskóla og Amtsbókasafns í nýju húsi sem er ætlað að efla bókmenningu, byggja upp Ljósmyndasafns bæjarins  og skapa betri vinnuaðstöðu í skólanum. Stækkun Leikskóla verður undirbúin. Byggð verður upp betri hafnaraðstaða í Stykkishöfn í þágu útgerðar og iðnaðarstarfsemi við Skipavíkurhöfn. Verulegar gatnagerðarframkvæmdir eru á áætlun og verða kostaðar með tekjum af gatnagerðargjöldum nýbygginga. Viðgerðum á gangstéttum verður haldið áfram  m.a. í Hólmgarði þar sem einnig verður sett upp svið fyrir útisamkomur. Einnig á að setja upp svið í sal Tónlistarskólans. Hafin veður hönnun íbúða í Dvalarheimilinu sem verða byggðar upp þegar hjúkrunarheimilið hefur verið flutt. Unnið verður að hönnun vegna stækkunar búningsklefa við sundlaugina. Endurnýjun leiktækja á Leikvöllum. Nokkur stór viðhaldsverkefni eru á dagskrá og þeirra stærst er viðgerð á húsnæði Eldfjallasafnsins. Það verða næg verkefni á næsta ári í þágu okkar góða bæjarfélags.

 

 

Dvalarheimilið hefur tekið við rekstri eldhússins í sjúkrahúsinu.

Eldhús Sjúkrahúss HVE og Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi  hafa verið sameinuð á sjúkrahúsinu. Með því skapast mikil hagræðing auk þess sem vinnuaðstaðan í eldhúsinu er allt önnur og betri en sú sem var í Dvalarheimilinu. Þessi aðgerð að sameina eldhúsin er fyrsti áfangi í því að hjúkrunardeild Dvalarheimilisins verði sameinuð sjúkrahúsinu. Með þeirri aðgerð er stefnt að miklum hagsbótum í aðstöðu íbúanna á hjúkrunardeildinni miðað við það sem er í dag. Auk þess að matreiða fyrir sjúkrahúsið og Dvalarheimilið er matreitt fyrir skólana.

 

Stykkishólmi 5. Desember 2016

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri