Vikupistill bæjarstjóra 12. nóvember 2016

Vikupistill bæjarstjóra 12. nóvember 2016

Vikupistill bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar

 

Þessa daga er unnið af kappi við að ljúka við fjárhagsáætlun bæjarins vegna ársins 2017. Einnig er leitast við að meta reksturinn tímabilið 2017 til ársins 2020. Í upphafi þessa kjörtímabils var staðan þannig að rekstur sveitarfélagsins var ekki í jákvæðu jafnvægi. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gerði alvarlegar athugasemdir vegna þess að ekki hafði verið þriggja ára jákvæður jöfnuður svo sem lög kveða á um og skuldahlutfallið var of hátt. Það er ekki auðvelt verkefni að draga saman seglin í útgjöldum sveitarfélags þar sem um er að ræða þjónustu sem svo mjög er kallað eftir og mikill metnaður og kröfur um að stofnanir okkar séu í fremstu röð.

 

Stærstu útgjaldaliðir eru til fræðslu og uppeldismála, til æskulýðs og íþróttamála og til menningarmála. Kostnaður við alla þessa útgjaldaþætti eru umfram það sem gerist á hvern íbúa hjá sambærilegum sveitarfélögum. Það er því ástæða til þess að gera áfram hagræðingarkröfu og gæta aðhalds svo tekjurnar nægi til þess að við getum sinnt sem best öllum þáttum í rekstrinum.

 

Rekstrarafkoma hafnarinnar hefur lagast mikið síðustu tvö árin. Þar skiptir mestu máli auknar tekjur frá ferjuþjónustunni á grunni nýs samnings við Sæferðir og einnig að nýr tekjuþáttur hefur bæst við sem eru tekjur af þjónustu við skemmtiferðaskip. Virðist ætla verða vöxtur í þeirri þjónustu ef marka má pantanir fyrir næsta ár.

 

Rekstur Dvalarheimilisins hefur verið mjög þungur mörg undanfarin ár. Nú hafa náðst samningar við ríkið um hækkun daggjalda og einnig yfirtöku ríkisins á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna heimilisins. Liður í hagræðingaraðgerðum á Dvalarheimilinu er að reka eldhúsþjónustu í samstarfi við sjúkrahúsið. Hefur Dvalarheimilið tekið við rekstri eldhússins á sjúkrahúsinu eftir nokkrar endurbætur á búnaði sem mun bæta vinnuaðstöðu til muna miðað við það sem er á Dvalarheimilinu. Verður þar strax matreitt fyrir sjúkrahúsið, Dvalarheimilið og Grunnskólann. Leikskólinn mun svo bætast við um áramótin. Er þess að vænta að með þessari skipulagsbreytingu náist umtalsverður sparnaður sem má þá nýta til þess að halda áfram að byggja upp stofnanir okkar í þágu bæjarbúa.

 

Á þessu ári voru helstu fjárfestingar og framkvæmdir við byggingu Amtsbókasafnsins við skólann og viðhald húsa, gatna og gangstétta. Þess er að vænta að á næsta ári verði haldið áfram við að endurnýja gatnakerfið, byggja upp nýjar götur svo úthluta megi lóðum bæði fyrir íbúðarhús og hótel og ljúka við byggingu Amtsbókasafnsins. Þess má geta að á næsta bæjarráðsfundi verður tekin fyrir umsókn um byggingu hótels innan við Vík þar sem gert er ráð fyrir slíkri atvinnustarfsemi. Um er að ræða hótel sem að hámarki geti orðið 250 herbergi auk þjónustubyggingar. Ber að fagna slíkum áformum.

Það stefnir því í töluverð umsvif á vegum bæjarins, atvinnufyrirtækja og einstaklinga á næstu árum.

 

Stykkishólmi, 12.nóvember 2016

Sturla Böðvarsson