Stök frétt

Vikupistill bæjarstjóra 28. október 2016

VIKUPISTILL BÆJARSTJÓRA

Á fundi bæjarstjórnar fimmtudaginn 27. október voru fjölmörg mál á dagskrá. Og það ríkti einhugur í bæjarstjórninni sem ber að fagna. Bæjarstjórn afgreiddi samhljóða  viðauka við fjárhagsáætlun þessa árs  og samþykkti einnig samhljóða forsendur fyrir fjárhagsáætlun ársins 2017, en nú er unnið við að móta fjárhagsáætlunina sem er mikilvægt verkefni starfsmanna bæjarins og  bæjarstjórnar hverju sinni. Þar blasa við okkur fjölmörg  verkefni sem þarf að undirbúa og hrinda í framkvæmd innan þeirra fjárheimilda sem við höfum. Hið umtalaða skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum er áætlað 117,3% í ár  sem er vel undir því hámarki  sem sett er 150%, en við náðum að lækka það verulega 2015. Einnig var afgreitt samhljóða hvernig skuli farið með verklag  gagnvart Skólastefnu Stykkishólms og Menningarstefnu Stykkishólms sem bæjarstjórn hafði áður samþykkt og einnig  var samstaða um tilnefningu fulltrúa til að sitja í Breiðafjarðarnefnd. Þá var samþykkt að efna til íbúafundar til þess að fjalla um þróunina í ferðaþjónustunni í bænum og þá hvort setja ætti takmarkanir á leyfisveitingar vegna heimagistingar. Staðfest var samþykkt bæjarráðs um götunöfnin á Víkurhverfi sem nú verður tekið til við að úthluta fyrir íbúðarhúsabyggð. Verður t.d. áhugavert að vita hverjir muni í framtíðinni búa við Daddavík, Imbuvík  eða við Baulutanga . Þegar hafa borist fyrirspurnir um byggingarlóðir í Víkurhverfi sem verður að mínu áliti einstaklega skemmtilegt íbúðasvæði með útsýni inn á Breiðasundið og til fjalla með Klofning í austri og Ljósufjöllin og Drápuhlíðarfjall  sem kórónur á þessum einstaklega fagra fjallgarði.

Fjölmörg  önnur mál voru afgreidd sem áður höfðu verið til meðferðar í bæjarráði. Allt lofar þetta góðu, enda skiptir það miklu máli að unnið sé vel í bæjarstjórn og flokkadrættir og persónulegar erjur ekki látnir yfirgnæfa málefnalega vinnu. 

Ég vakti athygli á því í fyrsta vikupistlinum mínum að það er gróska í bæjarlífinu á öllum sviðum og íbúunum hefur fjölgað, íbúðarhús eru í byggingu og það er sótt um lóðir undir atvinnuhúsnæði bæði á Hamraenda og við Aðalgötu. Vonandi gengur það allt eftir. Kjörtímabil núverandi  bæjarstjórnar er nú rúmlega hálfnað og er því gagnlegt að líta yfir farinn veg og bera saman framvinduna í dag við það sem var á áttunda og níunda áratugnum þegar hér var mesta uppbygging sem verið hefur fyrr og síðar.

Vorið 1974 komu hreppsnefndarmennirnir Ellert Kristinsson, þáverandi  framkvæmdastjóri Trésmiðju Stykkishólms og Einar Sigfússon, skrifstofustjóri Búnaðarbankans í Stykkishólmi og síðar útibússtjóri,   til mín þar sem ég sat önnum kafinn á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen í Reykjavík og reiknaði og teiknaði burðarvirki og lagnir í stórhýsi. Erindi þeirra var að hvetja mig til þess að sækja um starf sveitastjóra í Stykkishólmi. Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir því í hvaða ævintýraferð  var verið að bjóða mér.

Þeir höfðu þá unnið frækilegan kosningasigur í bæjarstjórnarkosningunum  vorið 1974 og höfðu það hlutverk að ráða sveitarstjóra. Áður en varði vorum við Hallgerður komin af stað vestur með börnin okkar þrjú sem við áttum þá og leigðum tímabundið út íbúðina sem við áttum því við vorum ekki viss um hversu lengi þetta ævintýri  stæði. Við fluttum inn í húsið okkar við Ásklif 20 árið 1982 og erum hér enn, þrátt fyrir nokkra útivist á árunum þegar ég var þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis. Í sautján ár var ég bæjarstjóri og bæjarfulltrúi síðustu árin með þingmennsku samtals tuttugu ár. Því rifja ég þetta upp að þessi tími var ótrúlegur uppgangs- og framkvæmdatími hér í Stykkishólmi og hreint ævintýri fyrir ungan mann að fá tækifæri til þess  að taka þátt í því öllu með frábæru fólki í bæjarstjórn. Er það einlæg von mín að við náum að lyfta Stykkishólmi aftur upp á þann stall framfara og uppbyggingar sem einkenndi allt það tímabil 1974 til 1994 og er ég viss um að það getur gerst ef atvinnutækifærunum fjölgar með aukinni nýtingu auðlinda hafsvæða Breiðafjarðar og frekari uppbyggingu í ferðaþjónustunni.

Það er fárast yfir því að við séum að byggja 550 fermetra hús yfir bókasöfnin til þess að efla almenna bókmenningu  og styrkja stöðu nemenda við Grunnskólann með bættri vinnuaðstöðu nemenda og kennara. Það er vissulega verðugt verkefni og vandasamt. En það er smámunir miðað við það sem okkur tókst að byggja upp á tímabilinu 1974 til 1994 en það ár gerði ég hlé á bæjarmálunum og nýtti krafta mína eingöngu á Alþingi.

Ég ætla til fróðleiks fyrir yngri bæjarbúa að rifja upp stærstu verkefnin sem unnin voru þetta tímabil, en þá var næg atvinna við skelveiðar og vinnslu ásamt vaxandi ferðaþjónustu, mikilli grósku í byggingariðnaði og miklum verkefnum hjá Skipavík.

Lokið var við að leggja nýja Vatnsveitu til bæjarins sem var stórvirki. Jafnframt voru endurnýjaðar allar vatnslagnir og skólplagnir í götum bæjarins, lögð olíumöl eða steypt slitlag á allar götur  og  gangstéttar steyptar. Bærinn eignaðist þriðjungs hlut í Skipasmíðastöðinni Skipavík, austurkanturinn í Stykkishöfn var byggður (1975),  höfnin í Skipavík byggð, Dráttarbrautin endurbætt,  Ferjuhöfnin í Súgandisey byggð, flotbryggjur  settar upp, Hafnarhúsið byggt. Blokkin við Skúlagötu 9 var byggð ásamt sjö leigu og söluíbúðum við Garðaflöt,  Félagsheimilið og Hótelið byggt og rekstur Hótel Stykkishólms hafinn árið 1977. Íþróttavöllurinn byggður upp, læknisbústaðurinn að Ægisgötu 2 byggður með ríkinu, Grunnskólinn við Borgarbraut byggður, Setrið byggt, Íþróttahúsið byggt og tekið í notkun, sjúkrahúsið stækkað með systrunum og ríkissjóði, Dvalarheimilið sett á stofn. Þá voru ný íbúðahverfi byggð upp þ.e.s. Sundabakki, Borgarbraut, Flatirnar, Ás og Neshverfið, Tjarnarmýri, Búðanes og Hamraendi  skipulagður. Hólmgarður var stækkaður um leið og Aðalgatan var færð og endurbyggð. Unnið var nýtt aðalskipulag ásamt með Húsakönnun sem lagði grunn að friðun og endurbyggingu gömlu húsanna í bænum. Sérstakt átak gert í gróðursetningu í bæjarlandinu eftir skipulagi Reynis Vilhjálmssonar landslagarkitekt og Kaupfélagshúsið keypt af SÍS til að verða Ráðhús. Og síðast en ekki síst skapaðar aðstæður svo söfnuðurinn gæti reist kirkjuna á þeim einstaka og glæsilega stað sem hún stendur á og gnæfir yfir Maðkavíkina og setur einstakan svip á bæinn.

Rétt er að taka það fram að þetta er skrifað eftir minni þar sem ég horfi yfir bæinn úr Ásklifinu  og eru því leiðréttingar vel þegnar ef eitthvað vantar eða er oftalið hér. Þessi upptalning er auðvitað til þess gerð að vekja athygli á því hvað var gert á þessu tiltekna tímabil. Það er vissulega einnig ástæða til að minnast þess sem gert var kjörtímabilin á eftir svo sem byggingu Sundlaugarinnar, Hitaveitunnar og Leikskóla en öll þessi mannvirki lögðu grunn að enn betra samfélagi. Við sem erum í bæjarmálunum núna þurfum að muna hversu mikið við eigum að þakka þeim sem stóðu með okkur í þessari einstöku uppbyggingu sem nýtist samfélaginu í dag.

Það sem af er  þessu kjörtímabili höfum við í bæjarstjórninni lagt grunn að ýmsum mikilvægum verkefnum sem horfa til framfara. Um þau mun ég skrifa í næstu Vikupistlum bæjarstjóra og vona að um þau náist sátt m.a. við þingmenn og þá ríkisstjórn sem vonandi verður mynduð sem fyrst.

Stykkishólmi, 28.október

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri.