Stök frétt

Vikupistill bæjarstjóra 21. október 2016

Vikupistill bæjarstjóra

Stykkishólmur er á réttri leið. Vísbending sem er vikurit um viðskipti og efnahag hefur í mörg ár skoðað fjárhag sveitarfélaga og gefið sveitarfélögunum einkunn. Þegar núverandi meirihluti bæjarstjórnar Stykkishólms tók við var Stykkishólmur í 34. sæti af 36 sveitarfélögum á listanum. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafði gefið bæjarstjórn rauðaspjaldið og allt stefndi í mikil vandræði og íbúum fækkaði. Núverandi meirihluti hefur frá fyrsta degi leitað allra leiða til þess að rétta reksturinn við og gæta hófs í skattlagningu en um leið setja af stað ýmsar framkvæmdir til þess að koma á öflugri hreyfingu sem skilar sér í auknum tekjum og bættum rekstri. Einkunnagjöf Vísbendingar skilaði sér strax 2015 eftir uppstokkun seinni hluta ársins 2014 og færðist Stykkishólmur þá upp úr 34. sæti í 24. sæti. Nú hafa þau tíðindi gerst að hagræðing og breytt stjórnun bæjarfélagsins hefur skilað okkur í 14. sæti í einkunnagjöf Vísbendingar sem er í raun ótrúlegur árangur, en sýnir að við erum á réttri leið. Við getum ótrauð haldið áfram við að byggja upp samfélagið og bæta aðstöðuna í þágu bæjarbúa.

 

Helstu framkvæmdir á vegum bæjarins það sem af er þessu ári er endurgerð og malbikun Víkurgötu, malbikun og steypa gangstétta við gatnamót Aðalgötu og Borgarbrautar, framkvæmdir við 550 fermetra byggingu Amtbókasafns við Grunnskólahúsið og bætt aðgengi fatlaðra við Grunnskólann og Íþróttamiðstöðina.

 

Á sviði skólamála og menningarmála hefur verið mikil gróska. Bæjarstjórn hefur samþykkt eftir vandaðan undirbúning bæði Skólastefnu Stykkishólms og Menningarstefnu Stykkishólms sem stjórnendur skólanna og menningarstofnana bæjarins munu fylgja fram með sínu fólki. Það má með sanni segja að það ríki bjartsýni í Stykkishólmi á þessum haustdögum og það mátti vissulega merkja það við setningu Norðurljósahátíðar í Stykkishólmskirkju í gær þar sem Kirkjukór og organisti Stykkishólmskirkju fengu heiðursviðurkenningu Stykkishólmsbæjar. Í lok þessa pistils vil ég hvetja bæjarbúa til þess að njóta þeirra viðburða sem boðið er uppá um helgina í nafni Norðurljósahátíðar 2016.

 

21.október 2016

Sturla Böðvarsson