Frá bæjarstjóra - Ný heimasíða Stykkishólmsbæjar

Frá bæjarstjóra - Ný heimasíða Stykkishólmsbæjar

Um tíma hefur verið unnið hörðum höndum við að  setja upp nýja heimasíðu fyrir Stykkishólmsbæ. Það verkefni hefur verið í höndum Hermanns Hermannssonar ritara bæjarstjóra með faglegri ráðgjöf frá Önnu Melsteð hjá Anok margmiðlun ehf. Stykkishólmi. Endurgerð og hýsing vefsins www.stykkisholmur.is var unnin af hugbúnaðarfyrirtækinu ADVANIA Reykjavík sem átti hagstæðasta tilboðið í þá þjónustu.

Um er að ræða umfangsmikla breytingu á heimasíðunni sem miðast við að veita sem bestar upplýsingar um stofnanir og stjórnsýsluna ásamt með því að bjóða upp á nýja þjónustu við bæjarbúa með svokallaðri íbúagátt  þar sem hægt verður að nálgast upplýsingar um viðskipti íbúa við bæjarsjóð sem og að leita að upplýsinga um alla þætti í rekstri bæjarsjóðs og stofnana og sækja á rafrænan hátt um þá þjónustu sem í boði er. Allar þessar breytingar miða að því að bæta samskipti og auðvelda íbúum og starfsmönnum bæjarins hin rafrænu viðskipti sem færast stöðugt í vöxt.

Um leið og starfsmönnum Nepal í Borgarnesi eru þökkuð góð samskipti og dygg þjónusta er fyrir tækið ADVANIA boðið velkomið til verka og þess vænst að það leiði okkur inn í þá veröld sem ný heimasíða skapar okkur.

Stykkishólmi 17. september 2016

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar